151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[12:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er fínasta breytingartillaga. Mig langaði hins vegar líka að spyrja hv. þingmann aðeins út í lán með breytilegum vöxtum. Eru þau eitthvað skárri en verðtryggð lán þó að þau séu óverðtryggð? Ef breytilegu vextirnir flakka eftir ógagnsærri ákvörðun banka en eru líklega að þó nokkru leyti til bundnir verðbólguþróun hvort eð er þá er ekki bein tenging við þá breytingu eins og það er alla vega í verðtryggða hlutanum. Fyrir utan að það að hafa lán verðtryggð er alger bilun því að vísitala neysluverðs er mælieining á ákveðna þróun í samfélaginu. Um leið og farið er að nota það mælitæki til að binda verð á ýmsum hlutum í samfélaginu þá er maður kominn með ákveðinn vítahring sem er alveg sturlaður kokteill.

Mig langar líka að velta aðeins upp með hv. þingmanni vanda lána með breytilegum vöxtum, sem bankar geta bara ákveðið að hliðra til fram og til baka nokkurn veginn eftir eigin geðþótta, það eru víst einhverjar viðmiðunarreglur á bak við en þær eru ekki mjög aðgengilegar, hvort það sé ekki alveg jafn slæmt og verðtryggð lán.