151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[12:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið og í rauninni þakka ég honum sérstaklega fyrir allt sem hann sagði. Ég hefði ekki getað sagt það betur. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það fyrirkomulag sem við höfum haft hér með þeirri kúgun sem verðtryggingin hefur verið þegar við höfum ítrekað og ævinlega verið að glíma við óðaverðbólgu. Við sáum hvað efnahagshrunið gerði á sínum tíma og hversu margar þúsundir fjölskyldna misstu í rauninni heimili sín þar sem greiðslubyrði þeirra stökkbreyttist á einni nóttu. Akkúrat í þeirri ólgu sem við erum að ganga í gegnum núna, í þessum heimsfaraldri og öllu sem honum fylgir, hefur Flokkur fólksins t.d. mælt fyrir frumvarpi um að afnema verðtryggingu á neytendalán, þó að það væri ekki nema til að setja annað axlabandið á skuldsett heimili í landinu. En í stað þess að vera með belti og axlabönd eru lánveitendur í bússunum og sjóstakknum alveg frá hvirfli til ilja með hattinum og öllu saman. Það er ekki flóknara en það. Það fer ekkert á milli mála, eins og hv. þingmaður benti á og tók þá undir það sem ég sagði, að í rauninni fær fjármálastofnunin alltaf að njóta vafans á kostnað neytandans. Þannig er það.

Þessi breytingartillaga er bara lítið skref í rétta átt en hún skiptir gríðarlega miklu máli, að lántakandi geti óskað eftir því að setja lánið í það hólf sem hann kýs sjálfur án þess að hann beri af því aukakostnað eða hærri greiðslubyrði, hvað þá að hann þurfi að fara aftur í greiðslumat.