151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[12:45]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þetta og það er alveg rétt að almennt eru það þeir sem eru fastir í verðtryggðum lánum sem borga fyrir partíið, þ.e. alltaf þegar verðbólguskotin koma. Það væri alveg hægt að beita ríkisfjármálum til að koma í veg fyrir það. Við erum bara því miður búin að vera með frekar mikið af (IngS: Hagsmunagæslu.) klassískri íhaldssemi — og jú hagsmunagæslu — í hagstjórn landsins mjög lengi.

Mig langar til þess að nota síðara andsvarið til að spyrja hv. þingmann aðeins út í frumvarpið sem við stöndum frammi fyrir. Nú hef ég haft pínu illan bifur á því eftir að það kom fram, ekki síst vegna þess að það kom mjög seint fram. Svoleiðis veldur mér alltaf smááhyggjum. Maður heldur að einhvern veginn sé verið að reyna að svindla á manni en eftir að hafa farið í gegnum þetta í efnahags- og viðskiptanefnd kemst ég ekki hjá því að hugsa: Jú, sem þjóðhagsvarúðartæki er kannski réttlætanlegt að Seðlabankinn hafi þessi verkfæri til að takmarka skuldahlutfallið í fasteignalánum og neytendalánum. En þetta getur haft neikvæð áhrif á það að þeir sem yrðu helst takmarkaðir ef Seðlabankinn myndi nota úrræðið eru þeir sem hafa minnsta getu til að fjárfesta í húsnæði.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Sér hún fyrir sér að þetta úrræði gæti verið misnotað á einhvern hátt í ljósi þess að það hefur á vissan hátt verið til mjög lengi? Eða hvort hún haldi að þetta muni bara blessast. Og þá kannski lokapælingin í þessu: Ef þetta er líklegt til að blessast, (Forseti hringir.) ef þetta er ekki líklegt til þess að vera notað, til hvers erum við þá með þetta úrræði? Er það raunverulega sú þjóðhagsvarúð sem okkur er sagt að það sé?