151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[12:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Ég skil vel vangaveltur hv. þm. Smára McCarthy vegna þess að ég var einmitt líka að velta þessu fyrir mér þegar ég las t.d. umsagnir með frumvarpinu sem ég tel þó í heild að séu sannarlega þess virði að koma hér fram og þess virði að við samþykkjum þær. Það sem virtist aðallega vera áhyggjuefnið, eins og hjá Alþýðusambandinu, var að þessi heimild sem er verið að veita í sambandi við frekara utanumhald gæti jafnvel orðið til þess að þeir tekjulægri yrðu ekki bærir samkvæmt því mati til þess yfir höfuð að fá lán. Það væri afskaplega slæmt ef sú staða kæmi upp.

En við höfum svo sem orðið fyrir vonbrigðum fyrr. Ég held því, hv. þm. Smára McCarthy, að við getum ekkert annað en krossað fingur og sagt bara: Bjartsýni og bros bjargar deginum þangað til annað kemur í ljós hvað þetta varðar. En það mætti gera það betur, það mætti tryggja það betur. En í heildina séð held ég að við séum á réttri leið, hvað þá ef okkur hefði auðnast sú gifta að afnema verðtryggingu á neytendalán til að tryggja skuldsettar fjölskyldur sem margar hverjar eiga um verulega sárt að binda í nánast Íslandsmeti í atvinnuleysi þar sem um 20.000 manns eru atvinnulausir og þar sem í rauninni hefur verið þrýstingur upp á við á leigumarkaði í þessari húsnæðiseklu, þessari ótrúlegu húsnæðisbólu sem við erum að glíma við núna.

En hv. þm. Smára McCarthy. Ég tel samt sem áður að við séum að fara rétta leið alveg þangað til að við fáum þá steininn í höfuðið og þurfum að viðurkenna eitthvað annað.