151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[13:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er mjög mikilvægt mál í mjög mikilvægum málaflokki. Þar sem skortur er á íbúðum á húsnæðismarkaði í dag þá býr sá markaður við skortstöðu. Þegar farið er í aðgerðir ríkisstjórnarinnar eins og hefur verið gert hérna, þar sem verið er að dæla peningum inn á húsnæðismarkaðinn og lækka vexti, hefur verð á húsnæðismarkaði hækkað allverulega.

Það er áhugavert að skoða aðeins kringumstæðurnar og upphæðirnar í þessu. Talað er um að hægt sé að taka fimm- til nífalt lán miðað við árlegar ráðstöfunartekjur og að hlutfall greiðslubyrði geti numið 25–50% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum. Hvernig lítur þetta út? Einhver sem er í fimmtu tekjutíund er með um 330.000 kr. í ráðstöfunartekjur, ef við skilyrðum það við ráðstöfunartekjur, það eru um 4 milljónir á ári í laun, sem þýðir 20–36 millj. kr. lán, og ráðstöfunartekjurnar upp á 25–50%, þá er maður með tæplega 170.000 kr. Það rétt sleppur innan við mörkin varðandi skilyrðin sem eru hérna. Einhver sem er t.d. í fimmtu tekjutíund gæti tekið lán upp á 36 milljónir til að kaupa íbúð. En hið dularfulla í þessu öllu er það hvernig einhver sem er með þessar ráðstöfunartekjur getur safnað sér til að byrja með fyrir því sem munar upp í afborgun. Það er vandamál leigumarkaðarins, eins og hefur verið hérna, að lánagreiðslan er mun lægri en leiguverðið. Það býr til ákveðinn vítahring þar sem sá sem er í leiguhúsnæði mun aldrei geta safnað fjármagni til að borga inn á íbúð.

Þetta er vandamál og það eru lausnir í ýmsum öðrum löndum sem eru áhugaverðar og væri áhugavert að skoða. Til að byrja með er svona viðmið til í mörgum öðrum löndum. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum var Obama að vinna mikið með að ekki ættu að fara meira en 40% af ráðstöfunartekjum í húsnæði. Það væri eitthvað sem fólk ætti að miða við til að geta haft ofan í sig og á og eiga fyrir öllu öðru. Það er gott að hafa svona viðmið, það er hins vegar spurning hvort það sé nauðsynlegt að setja þau í lög. Það gæti haft neikvæð áhrif, eins og hefur svo sem verið bent á í umsögnum, en það gæti líka haft þau áhrif að til verði aðrir möguleikar til lengri tíma og jafnvel með lægri vöxtum til að fólk sem hefur lægri tekjur geti keypt fasteignir, því að, og það er mikilvægi hlutinn í öllu kerfinu, hinn hluti lífeyriskerfisins er að eiga þak yfir höfuðið skuldlaust þegar fólk fer á eftirlaun. Það er ekki nógu mikið talað um það mikilvæga atriði. Þegar fólk fer á eftirlaun duga þau yfirleitt mjög skammt ef fólk er líka að borga skuldir af húsnæði, hvað þá leigu.

Það er rosalega mikilvægt að gera rétt og gera vel á húsnæðismarkaði á Íslandi. Það er nauðsynlegt að hafa þak yfir höfuðið, veður og vindar eru þannig. Í þeirri kerfisuppsetningu sem við erum með núna fyrir efri árin er gert ráð fyrir skuldlausu húsnæði. Annars lendir fólk í vanda, að sjálfsögðu ekki allir, ekki þeir sem eru með gríðarlega há laun og þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeim hluta, en fyrir flest okkar er þetta ekkert auðvelt og ekkert sjálfsagt að fara í gegnum lífið tiltölulega áfallalaust og koma sér í skuldlaust húsnæði fyrir efri árin.

Þetta mál gæti hjálpað eitthvað í þá áttina en eitt og sér er það ekki nóg. Þessi viðmið eru góð en úrræðin til að tryggja aðgang fólks að skuldlausu húsnæði fyrir eftirlaun er eitthvað sem vantar og við eigum enn þá eftir að sjá þau úrræði birtast okkur. Það geta verið ýmis úrræði, eins og kaupleigusamningur þar sem fólk er í rauninni í leiguíbúð en leigan sem borguð er safnast upp í innborgun fyrir kaup. Slíkt fyrirkomulag væri t.d. einn möguleiki. Annar möguleiki væri, eins og tíðkast í sumum löndum, að fólk kaupi smám saman. Það er kannski í 100% leiguhúsnæði en kaupir smám saman fermetra og fermetra og minnkar þannig leiguna á móti eigninni.

Það er til fullt af lausnum sem hægt væri að prófa. Hægt er að fara í aðgerðir eins og að byggja upp félagslegt húsnæði sem verður síðan að markaðshúsnæði seinna þegar búið er að klára þá kynslóð sem kemst í félagslega húsnæðið. Þannig verður ákveðin velta á íbúðum þar sem nýtt félagslegt húsnæði kemur í staðinn fyrir það eldra sem er að fara út. Þannig er hægt að tryggja þeim sem eru á lægri launum öryggi til efri áranna. Það eru margir möguleikar til aðgerða til staðar sem gætu komið til góða meðfram þessum breytingum. Þetta eitt og sér er ekki nóg, það þarf meira til. Það væri áhugavert að sjá þær áætlanir, sem ættu kannski að fylgja með þessu, um hvernig verið er að tryggja mismunandi tekjuhópum þá möguleika að eignast skuldlaust þak yfir höfuðið. Það er eitthvað sem mér finnst vanta, ákveðin sviðsmynd. Til að byrja með er fólk kannski í annarri eða þriðju tekjutíund. Þeir sem eru í fyrstu tekjutíund eru yfirleitt nemendur eða ekki reglulega á vinnumarkaði, eða með ýmsar aðrar ástæður fyrir því að þeir eru á það lágum tekjum. En viðmiðið er bara fyrir einstakling sem er í annarri tekjutíund. Hvernig lítur það plan út frá unglingsárum til efri ára, sem skilar þeim einstaklingi skuldlausu þaki yfir höfuðið? Hvernig lítur það út? Það er eitthvað sem við ættum að vera með aðgengilegt til þess að fólk viti við hvað verið er að miða, hvernig það getur hagað sínum málum á þann hátt að það skili þessum árangri sem er nauðsynlegur til þess að virkja hinn hluta lífeyriskerfisins, skuldlaust húsnæði. Við erum annars vegar með þann vasapening sem lífeyririnn er í raun. Honum er ekki almennt séð ætlað að standa undir afborgunum af húsnæði. Hann er alla jafna ekki nægilega hár til þess.

Stjórnvöld þurfa að mínu mati að leggja fram þessar áætlanir fyrir mismunandi tekjuhópa, fyrir mismunandi tekjur. Ef maður er með 400.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði, hvað þýðir það í þessari þróun frá því að fólk byrjar að leigja eða annað, yfir í það að það eignast húsnæði og eignast húsnæði skuldlaust áður en það fer á ellilífeyri? Sú áætlun er ekki til.

Það eru alla vega tvær reiknivélar, annars vegar hjá Tryggingastofnun og hins vegar hjá velferðarráðuneytinu, sem skilgreina ráðstöfunar- eða framfærsluviðmið og þess háttar — það er ekki alveg það sama, sem er mjög undarlegt. Það er mjög skrýtið að ekki séu leiðbeiningar um það hvernig staða mismunandi tekjuhópa er til framtíðar miðað við þá möguleika sem eru í boði til að komast að þessu marki.

Hinn möguleikinn er síðan að sjálfsögðu að hætta að hafa þessa tegund af lífeyriskerfi sem gerir ráð fyrir skuldlausu húsnæði við þennan aldur. En það er miklu stærri ákvörðun að fara út í svoleiðis og þarf að gera ansi miklar breytingar til þess. En það er algjört lykilatriði að hafa þessi viðmið. Þau held ég að muni hjálpa mikið, eins og margir umsagnaraðilar hafa bent á. Þetta er ákveðinn stöðugleiki til grundvallar því hvernig fólk tekur áhættu í stærstu kaupum lífsins. Vandinn sem ég sé við þetta er að þetta skilur mögulega eftir dálítið stóran hóp af því að við sjáum ekki hvaða aðgerðir eða hvaða lausnir eru í boði fyrir þá einstaklinga til að komast sömu leið og gert er ráð fyrir í lífeyriskerfinu, að eignast skuldlaust húsnæði. Ég hlakka til að sjá þær áætlanir.