151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[13:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar við þessa umræðu að koma stuttlega inn á efnisatriði málsins en kannski sérstaklega nefndarálit meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég vek athygli á því að fulltrúi Miðflokksins í nefndinni, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skrifar ekki undir þetta nefndarálit og mig langar, annars vegar með vísan í ræðu hans fyrr í þessari umræðu og hins vegar með vísan í nefndarálitið, að byggja undir þá ákvörðun að vera ekki á nefndarálitinu.

Í álitinu sem er svo sem ekki langt, efnislegur hluti þess er sennilega í námunda við tíu til tólf línur, segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að þau mörk sem gilda um hámark lána og greiðslubyrði þeirra sem hlutfall af tekjum verði skilgreind nánar auk þess sem lagt er til að bætt verði við ákvæði um heimild Seðlabankans til að skilgreina undanþágur frá hámörkunum vegna ákveðins hundraðshluta af heildarfjárhæð veittra lána á tilteknu tímabili.“ — Þetta eru kannski tæknilegu atriðin.

Síðan segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn tekur undir með Samtökum fjármálafyrirtækja um að mikilvægt sé þegar breytingar eru gerðar á skilyrðum við lánveitingar að þær séu kynntar vel fyrir neytendum áður en þær ganga í gildi.“

Skárra væri það nú. Það er svo sem ekki reitt hátt til höggs í þessu tilviki hvað það varðar að koma fram með forsvaranlegum hætti gagnvart neytendum og lántökum. Auðvitað er alveg sjálfsagt að þetta svigrúm sé til staðar. Síðan segir áfram hér, með leyfi forseta:

„Gæta þarf þess, verði þessum stjórntækjum beitt, að lánveitendur fái svigrúm til að breyta kerfum sínum og að þeir fasteignakaupendur sem þegar hafa hafið kaupferli og fengið greiðslumat verði ekki fyrir íþyngjandi áhrifum vegna hertra skilyrða.“

Þetta er eins sjálfsagt og það getur verið en eins og oft er í nefndarálitum, frumvörpum og þar fram eftir götunum þá segir það sem ekki er sagt kannski mest. Þarna eru sérstaklega tilgreind sjónarmið sem koma fram í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og fljótt á litið sýnist mér ekki vísað í aðrar umsagnir. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja, sem eru nú þeir aðilar sem veita flest þeirra lána sem um er fjallað í þessu máli, segir í 1. lið, með leyfi forseta:

„Með beitingu strangari skilyrða verða áhrifin einna mest á aðgengi tekjulægri hópa að lánsfjármögnun til fasteignakaupa.

Samtök fjármálafyrirtækja gerðu athugun meðal lánveitenda sem bendir til að áhrifin geti orðið ívið meiri en gert er ráð fyrir í greinargerðinni og þá ekki síst á fyrstu kaupendur sé horft til lánveitinga sl. 12. mánuði. Þannig mun beiting strangari skilyrðanna takmarka aðgengi stórra hópa að fasteignamarkaði.“

Mér þykir eiginlega alveg ótrúlegt að ekkert sé komið inn á þessi varúðarorð Samtaka fjármálafyrirtækja í umsögn nefndarinnar. Miðað við að þetta er eina umsögnin sem fær yfir höfuð einhverja athygli í þessu nefndaráliti finnst mér algerlega ótrúlegt að kjarnaatriðið í umsögninni fái enga athygli. Þar er beinlínis sagt, aftur með leyfi forseta:

„Með beitingu strangari skilyrða verða áhrifin einna mest á aðgengi tekjulægri hópa að lánsfjármögnun til fasteignakaupa. […] Þannig mun beiting strangari skilyrðanna takmarka aðgengi stórra hópa að fasteignamarkaði.“

Er þetta markmið ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eiga aðild að? Ég verð að viðurkenna að það kemur mér mjög á óvart og ég á svo sem eflaust eftir að fá skýringu á því hvað veldur. En ég bara gat ekki annað en nefnt það hér við þessa umræðu að það hefur að fullu verið skautað fram hjá þessum sjónarmiðum í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem fulltrúi Miðflokksins skrifar ekki undir. Það blasir við að þetta regluverk, eins og það liggur fyrir núna, mun þrengja að mögulegri fjármögnun þeirra efnaminni hvað eigin húsnæði varðar.

Þá vil ég nefna hér umsögn sem í engu er getið í nefndaráliti meiri hlutans en það er umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Stofnunin hefur þannig m.a. það hlutverk að annast lánveitingar til tekjulægri hópa en aðrir lánveitendur þar sem stofnunininni eru settar skorður varðandi hámarksfjárhæð lána, eða 30 millj. kr.“

Þá hefur stofnunin í ríkari mæli nýtt sér heimildir til þess að líta til lægri framfærsluviðmiða við greiðslumat en aðrir lánveitendur svo tekjulægra fólk á auðveldara með að standast greiðslumat hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.“

Þetta er sama kjarnaatriði. Þarna benda þessir tveir fyrirsvarsaðilar hóps fyrirtækja, þeir aðilar sem veita tekjulægri einstaklingum fyrirgreiðslu, á að að þessu frumvarpi samþykktu muni þrengja að möguleikum tekjulægri einstaklinga til að koma sér sínu eigin þaki yfir höfuðið. Ég held að flestir Íslendingar séu séreignarstefnusinnaðir hvað húsnæðismál varðar. Flestir vilja eiga sitt eigið hús eða sína eigin íbúð og sjá, líka í sögulegu samhengi, tækifæri til eignamyndunar þar. Mjög stórir hópar, sérstaklega þeirra tekjulægri, eru í þeirri stöðu að vera að borga meira í leigu heldur en þeir þyrftu að borga af láni og í rekstrarkostnað húsnæðis sem myndi fullnægja þörfum þeirra. Eignamyndun gæti því verið að eiga sér stað í stað þess að stórir hópar séu fastir á leigumarkaði. Við þekkjum þá umræðu undanfarin ár og í sjálfu sér alveg síðan í hruni, held ég að sé óhætt að segja, að fjölskyldur og einstaklingar séu að borga miklu meira í leigu heldur en þeir þyrftu að borga af eigin húsnæði fengju þeir bara greiðslumat til þess. Umsagnir þessara tveggja aðila, annars vegar Samtaka fjármálafyrirtækja og hins vegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem veita einmitt tekjulægri einstaklingum þessi lán, eru svo afgerandi að ég er mjög hissa á því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi ekki tekið þessi sjónarmið til skoðunar heldur lagt til að frumvarpið verði samþykkt og þá óbreytt eins og það liggur fyrir.

Ég vildi halda þessu til haga við þessa umræðu því að vilji stórra hópa til að eiga frekar en að leigja er raunverulegur. Við eigum ekki að leggja stein í götu þess fólks sem vill koma sér eigin þaki yfir höfuðið með því að þvinga það í þá stöðu að borga hærri leigu á leigumarkaði en sem samsvarar því sem það myndi kosta að standa undir kaupum á eigin húsnæði. Það vekur hjá mér mikla undrun að málið sé að klárast á þessum nótum því að á sama tíma er búið að samþykkja frumvörp, hlutdeildarlán og fleiri slíkar lausnir sem ýta undir séreignarnálgunina. Síðan kemur þetta mál og gengur gegn þeim markmiðum. Ég hefði ekki talið að Sjálfstæðisflokkurinn myndi hafa frumkvæði að því að leggja fram frumvarp sem bregður fæti fyrir séreignarstefnu í húsnæðismálum en það er nú eins og oft vill verða að lengi skal manninn reyna.

Þetta er nú það sem ég vildi segja við þessa umræðu. Ég ítreka bara þau varnaðarorð sem viðhöfð eru í þessum tveimur umsögnum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með beitingu strangari skilyrða verða áhrifin einna mest á aðgengi tekjulægri hópa að lánsfjármögnun til fasteignakaupa. […] Þannig mun beiting strangari skilyrðanna takmarka aðgengi stórra hópa að fasteignamarkaði.“

Þessi varnaðarorð skilja ekki eftir neitt svigrúm til misskilnings og því er til haga haldið. Vonandi verður hægt á síðari stigum að styðja með ákveðnari og traustari hætti við það að efnaminna fólk í lægri tekjuhlutum samfélagsins eigi auðveldara með að koma sér eigin þaki yfir höfuðið heldur en hér er lagt til.