151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[14:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér þetta frumvarp sem kveður á um breytingar á lögum, annars vegar um póstþjónustu og hins vegar um Byggðastofnun, þ.e. flutning póstmála. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, sem er framsögumaður málsins, fór yfir málið og hið sama gerði hv. þm. Guðjón S. Brjánsson. Ég ætla engu að síður að hafa nokkur orð um þetta hér. Ég leyfi mér að vera svolítið sértækari í umfjöllun minni en þessir tveir hv. þingmenn.

Við erum sem sagt með það ágæta verkefni hér að flytja verkefni póstmála til Byggðastofnunar þar sem áhersla er lögð á að gæta þess að hlutverk Byggðastofnunar verði þar með það sama og hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar var fyrir tilfærsluna og að Byggðastofnun hafi sömu heimildir og sömu skyldur sem voru lagðar á þá stofnun í þessum málum, af því leiða þessar breytingar. Það er rétt sem fram hefur komið að þeir voru allmargir umsagnaraðilar sem hvöttu til þessa flutnings yfir til Byggðastofnunar að því gefnu að fjárveiting og mannauður til að sinna verkefninu svo vel verði sé tryggður og þar með virkt eftirlit með póstþjónustu, sem er auðvitað lykilatriði í þessu máli.

Síðan voru aðrir sem lýstu yfir efasemdum, eins og fram hefur komið, og höfðu áhyggjur af því að sérfræðiþekking og reynsla gæti glatast við flutning og gerðu það jafnframt með þeim rökum að póstþjónusta væri í sjálfu sér ekki byggðamál. Það má láta liggja á milli hluta. Aukinn rafvæðing í flutningi gagna er líkleg til að hafa m.a. þau áhrif að póstmál séu akkúrat það, byggðamál, á meðan við erum a.m.k. ekki komin svo langt í rafvæðingunni að við flytjum pakka á rafrænan máta. Enn fremur var að einhverju leyti talaði um að togstreita gæti myndast milli eftirlitshlutverks Byggðastofnunar og síðan þess hlutverks sem stofnunin hefur, að efla byggð, og það er alveg satt og rétt og ástæða til að vara við því að slík staða getur komið upp þegar stofnun fær þetta hlutverk að hafa eftirlit með sjálfri sér, ef svo má segja.

Það var líka bent á ýmis álitaatriði sem varða póstþjónustu í landinu og nauðsyn þess að skapa grundvöll fyrir heilbrigða starfsemi, heilbrigða samkeppni — oft er hægt að setja samasemmerki á milli þessara tveggja orða þó að mér hafi hérna orðið fótaskortur á tungunni — á póstmarkaði. Það er kannski grunnur þess sem mig langar til að ræða hér af því að auðvitað skiptir þetta mjög miklu máli fyrir hagsmuni allra sem málið varðar. Og það kemur fram og kom fram í umfjöllun nefndarinnar að það væri áhugi á að nota ferðina, ef svo má segja, til að breyta til baka óheppilegri breytingu sem varð í meðförum þings á breytingu á póstlögum fyrir u.þ.b. tveimur árum og það er gert hér eins og framsögumaður fór ágætlega yfir áðan.

Það skiptir máli að finna leið til að tryggja hér að heilbrigð starfsemi — aftur verður mér þessi fótaskortur — að heilbrigð samkeppni ríki á þessum markaði vegna þess að um er að ræða atvinnutækifæri fyrir fjölda fyrirtækja akkúrat í hinum dreifðu byggðum. Það skiptir máli vegna þess að það eru allar líkur á því að lítil fyrirtæki í heimabyggð geti sinnt þessari þjónustu betur en ríkisstofnun með margar skyldur. Það er líka þannig að þessi minni fyrirtæki eru líklegri til að taka upp á sína arma hinar ýmsu nýjungar. Þetta er markaður í örri þróun. Þannig að á sama tíma og við þurfum að tryggja sem jafnastan aðgang allra landsmanna að þessari þjónustu þá þarf að tryggja þessi samkeppnissjónarmið og ég er ein þeirra sem er þeirrar skoðunar að þarna sé samasemmerki á milli.

Þurfi það til, hvort sem það er tímabundið eða til lengri tíma, er hægt að tryggja réttláta verðlagningu í dreifðari byggðum með einhvers konar útfærslu á flutningsjöfnun og þetta er nokkuð sem við þekkjum vel í okkar fámenna, dreifbýla landi. Að þessu sögðu leggur nefndin til ákveðnar breytingartillögur og sú fyrri, sem er ástæða til að fagna mjög mikið, er greining á tækifærum til úrbóta á póstmarkaði. Með öðrum orðum telur nefndin að bæta þurfi grundvöll fyrir heilbrigða samkeppni á póstmarkaði ásamt því að tryggja aðgengi landsmanna að póstþjónustu óháð búsetu. Nefndin leggur til að hafin sé vinna við að greina möguleg tækifæri í þessa veru.

Ég er mjög sátt við þessa breytingartillögu. Nefndin leggur til að ráðherra póstmála, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra, skipi starfshóp til að tryggja að þessum markmiðum verði náð. Nefndin skilgreinir í nefndaráliti hvert markmiðið er, þ.e. að greina tækifæri til að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu, þ.e. þennan alþjónustukostnað, útfæra tillögur til að tryggja að allir landsmenn fái notið póstþjónustunnar og greiði fyrir hana viðunandi verð, m.a. mögulega með flutningsjöfnun, tryggja heilbrigða samkeppni á svæðum þar sem ekki er markaðsbrestur, og greina og bregðast við mögulegri skörun á milli laga um póstþjónustu og laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.

Töluverðar umræður urðu í nefndinni um skipan þessa starfshóps og ég er þakklát bæði hv. framsögumanni og nefndinni í heild fyrir að taka athugasemdir mínar til greina um að ég myndi vilja sjá okkur kveða mjög skýrt á um það að við vildum að sjónarmið neytenda og atvinnurekenda sem og ólíkra byggða og vissulega ráðuneytanna kæmust til skila í slíkri vinnu. Það er raunverulega skrifað inn í breytingartillöguna þar að lútandi að þessir aðilar skulu annars vegar skipa starfshópinn og skoða þessi mál. Það er vel.

Síðan er önnur breytingartillaga sem lýtur að þessari gjaldskrá alþjónustu. Þar vísar nefndin til þess vanda sem ég vísaði í áðan, sem kom upp á póstmarkaði í kjölfar nýrra laga um póstþjónustu frá 2019, þar sem í meðförum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar var ákvæði breytt þannig að í stað þess, eins og ákvæðið kemur frá ráðuneytinu, að eingöngu væri kveðið á um að smásölugjaldskrá fyrir verð allt að 50 g innan alþjónustu skyldi vera hið sama um allt land, var farið alla leið upp í pakka undir 10 kg. Og þar með steig ríkið með mjög afgerandi hætti inn í markað sem var samkeppni á og ekki hefði þurft að grípa til þessara alþjónustuúrræða á þeim markaði. Hér er sem sagt verið að leggja til að ákvæðinu verði breytt til baka þannig að gjaldskrá fyrir alþjónustu sé hin sama um allt land fyrir bréf upp að 50 g.

Mig langar til að hafa nokkur orð um þetta vegna þess að það skiptir máli. Ég er í fyrsta lagi mjög ánægð með að þetta kom til og að nefndin nær samstöðu um þessa lagfæringu og sýnir að það skiptir máli að tala saman og taka tillit til allra sjónarmiða en meðgangan var býsna löng og olli skaða. Það er einfaldlega þannig.

Forsaga málsins er sú að einkaréttur Póstsins á tiltekinni póstþjónustu féll úr gildi um áramótin 2019–2020 og samtímis tók fyrirtækið tímabundið, þ.e. til eins árs, við hlutverki svonefnds alþjónustuveitanda á grunni samnings við ríkið. Ríkið kaus sem sagt að fara þá leið frekar en að bjóða þjónustuna út eins og ég reyndar lagði til í breytingartillögu og það er opið á það að hægt sé að bjóða þetta út og bjóða þetta út á smærri svæðum sem myndi þá svara þessari stöðu með mismunandi aðstöðu fólks á mismunandi svæðum landsins. En þetta varð sem sagt niðurstaðan og síðan ári seinna var samningurinn framlengdur til áratugar. Þegar lögin, eins og ég kom inn á áðan, voru afgreidd vorið 2019 var ætlunin upphaflega að láta gjald fyrir bréf undir 50 g að þyngd vera hið sama fyrir allt landið, þ.e. þjónusta sem engin samkeppni hafði verið um enda hafði Pósturinn svo sem notið einkaréttar á dreifingunni. En í meðförum meiri hluta þingsins bættist hins vegar við svo illa ígrunduð setning, leyfi ég mér að segja, að hið sama skyldi ná yfir pakkasendingar allt að 10 kg, þ.e. sama verð fyrir allt land. Þar með var litið fram hjá því að það hafði ríkt heilbrigð samkeppni á þessum markaði, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem fjöldi smærri vöruflutningafyrirtækja hafði sinnt þjónustu við tiltekin svæði með sóma í ár, jafnvel áratugi. Þetta talaði síðan í þokkabót mjög illa við ákvæði sem líka er bundið í þessi sömu lög, að gjaldið skyldi taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þetta er raunverulega gagnkvæmt útilokandi ákvæði inni í einum og sömu lögunum og er býsna sérstakt að það skuli hafa tekið jafn langan tíma fyrir þá aðila sem málið varðaði að átta sig á þessu og koma skilaboðum til löggjafans. Þeir einu sem það gerðu voru raunverulega þau fyrirtæki sem þarna báru skarðan hlut frá borði og það verður að segjast eins og er að leið þeirra að eyrum okkar þingmanna var býsna löng.

Síðan gerist það að Pósturinn breytir gjaldskrá sinni samkvæmt þessum lögum, fer eftir tilmælum um sama gjald á pakkasendingum um allt land en hunsar tilmælin um að gjaldið taki mið af raunkostnaði þannig að gjaldið verður raunverulega hið sama á öllum fjórum skilgreindum markaðssvæðum Póstsins og tók mið af því lægsta, þ.e. þéttbýlissvæðinu hér á suðvesturhorninu. Önnur leið hefði getað verið að taka mið af meðaltalsgjaldi þannig að verðið hækkaði eilítið á höfuðborgarsvæðinu en lækkaði þar með um tugi prósenta á öðrum svæðum landsins. Það hefði vissulega leitt til þess að Pósturinn hefði að öllum líkindum orðið undir í samkeppni við dreifingarfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og orðið af tekjum en samkeppnin úti á landi hefði þá lifað góðu lífi.

En svona var þetta og auðvitað er þegar upp er staðið engum um að kenna öðrum en löggjafanum fyrir að hafa klárað málin svona. Og auðvitað er ég sannfærð um að þingmenn sem stóðu að þessum breytingum sáu ekki þessa atburðarás fyrir og breytingarnar voru gerðar af góðum hug í nafni þjónustu við landsbyggðina. En svona fór þetta nú, að þessi niðurgreiðsla varð allt annað en aðstoð við landsbyggðina í ljósi þess hvernig þetta fór með fyrirtækin þar. En við erum sem sagt að breyta þessu núna og það er vel. Það kemur síðan í ljós hversu mikinn alþjónustustuðning þarf að veita úti á landi til að tryggja það að fólk sem býr í dreifðari byggðum njóti sanngjarns verðs eða kostnaðar við það að fá póstinn og ég trúi því að það verði tiltölulega auðveldlega leyst. Við höfum kynnst öðru eins hér á okkar ágæta landi. Mögulega gæti það staðið á pari við þann kostnað sem leitt hefur af greiðslum úr vasa ríkissjóðs vegna niðurgreiðslunnar vegna þess að þessi undirverðlagning á dreifbýlissvæðinu hefur skaðað þjónustuveitendur og leitt til rekstrartaps hjá Póstinum sem hefur verið greitt upp með sérstökum greiðslum nokkrum sinnum á þessum tíma. Það liggur þá alla vega fyrir að sá peningur ætti að losna í flutningsjöfnunina.

Um leið og ég fagna því að sjá þessa breytingartillögu þá get ég ekki lokið máli mínu hér án þess að minnast á viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra sem fer fyrir hönd ríkisins með eina hlutabréfið í Póstinum ohf. Þannig er að stjórnarmaður sem Viðreisn tilnefndi í stjórn Póstsins hefur undanfarið ár verið óþreytandi að benda á neikvæðar afleiðingar þessara breytinga og á það að svo virðist sem þessar gjaldskrárbreytingar sem komu í kjölfar þessara illa ígrunduðu lagabreytinga hafi verið útfærðar án aðkomu og í einhverjum tilfellum jafnvel án þess að stjórn væri upplýst, þ.e. stjórn Póstsins, og kallaði eftir breytingu þar á en talaði fyrir daufum eyrum að því er við héldum, þrátt fyrir að hér sé, held ég að óhætt sé að segja, býsna alvarlegt athæfi. Ég held að það sé óhætt að ganga út frá því að vaskleg framganga stjórnarmannsins átti stóran þátt í því að vekja fólk af draumi og kristallast síðan í þessari breytingartillögu sem við erum að ná samstöðu um hér. En framgangan kostaði stjórnarmanninn sem sagt sæti sitt í stjórn Póstsins. Ég veit það og hef fyrir satt að yfir því er hann svekktur. En það svekkelsi trompar nú samt ekki ánægju hans yfir því að sjá okkur vera hér að leiðrétta þessi mál sem hann er búinn að vera óþreytandi við að benda á.

Síðan langar mig, herra forseti, aðeins í lokin að nefna þetta með tímasetninguna. Líneik Anna Sævarsdóttir, hv. framsögumaður, hefur farið hér yfir það að upprunalega var ætlunin að þessar breytingar kæmu til framkvæmda 1. september 2021. Það var á leiðinni í gegn en síðan kemur ábending frá stjórn Póstsins þar sem þau biðja um lengri tíma, áramót held ég að hafi verið talað um af þeirra hálfu, sem þýðir náttúrlega á mannamáli að jólavertíðin hefði siglt annað árið í röð fram hjá þessum fyrirtækjum á landsbyggðinni. Og ég ætla bara að benda á að ég hef það fyrir satt og eftir fjölda samtala við fólk sem rekur þessi fyrirtæki og við íbúa á landsbyggðinni sem njóta þjónustu þeirra, að hún sé í mörgum tilfellum betri en það sem Pósturinn veitir af ástæðum sem ég rakti áðan, að þetta eru lítil heimafyrirtæki sem þekkja sitt heimafólk og sinna þeim af alúð.

Þannig að það var eiginlega enginn sigurvegari í þeirri mynd að annað árið í röð yrði þessi risapakkavertíð, sem jólin eru nú, með þessum hætti. Ég ætla að bæta því við líka að það er náttúrlega af og frá að stjórn Póstsins hafi ekki verið upplýst og meðvituð um að þessar breytingar væru í farvatninu. Þær eru unnar í nánu samráði við ráðuneytið þannig að ég ætla bara að segja það hér hreint út að ég kaupi þau rök ekki að þennan tíma hafi þurft. Ég veit að það voru mismunandi skoðanir uppi meðal nefndarmanna og ég held að hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Bergþór Ólason, hafi verið einn þeirra sem hafði samband við aðila og tryggði það að náðst gæti sátt um þetta. Þannig að 1. nóvember var niðurstaðan.

Ég held við höfum rætt 1. september, 1. nóvember, 1. október, 1. desember og 1. janúar. Þetta var einhvern veginn svona. 1. nóvember er hérna í miðjunni og nefndin sættist á það og ég gerði það líka, þannig að þessar breytingar verða komnar til framkvæmda ef svo fer sem horfir hér í þingsal og þá er þessu tímabili lokið og uppbyggingarstarfsemin er fram undan þar sem þessi vinnuhópur, sem hér er verið að stofna, getur tekið málið föstum tökum. Ég hef fulla trú á því að við ráðum við það að hér á landi verði póstþjónusta til fyrirmyndar, hvort sem um er að ræða í þéttbýli eða dreifbýli, og að við ráðum við að tryggja sanngjarna verðlagningu fyrir alla.