151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[15:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að eiga orðastað við hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um þetta frumvarp. Hún kemur úr flokki sem oft hefur talað mikið um neytendavernd og varðandi póstþjónustu eru auðvitað uppi andstæð sjónarmið. Hv. þingmanni varð tíðrætt um eitthvað sem heitir heilbrigð samkeppni. (HKF: Heilbrigð starfsemi.) Heilbrigð starfsemi? Já, í nefndarálitinu er mikið talað um heilbrigða samkeppni og þetta rekst hvort á annars horn oft á tíðum, þ.e. réttur neytenda til þjónustu og svo samkeppni og starfsemi. Kostnaður við að veita neytanda sem er búsettur fjarri þéttbýli þjónustu er oft á tíðum svo mikill að enginn vill veita þá þjónustu í nokkurri samkeppni og þar hleypur ríkið undir bagga. Ég vil spyrja hv. þingmann um það atriði. Hversu mikið telur hún að ríkið eigi að ganga þar inn í málin og niðurgreiða þjónustu til dreifðra byggða og við hvað á að miða svo að allir geti búið við fyrirtaks póstþjónustu? Eins og hún sagði á póstþjónustan að vera til fyrirmyndar og við skulum vona að hún sé það. En hversu langt á að ganga og hversu miklar upphæðir erum við að tala um í því sambandi? Hvað er hún tilbúin að borga fyrir slíkt og eru einhver mörk, þ.e. kannski með pakka eða bréf eða eitthvað slíkt?