151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

umhverfismat framkvæmda og áætlana.

712. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir annars vegar nefndaráliti með breytingartillögu fyrir hönd hv. umhverfis- og samgöngunefndar og hins vegar fyrir breytingartillögu á sérskjali sem ég flyt sem framsögumaður málsins. Tek það þó fram að hún er flutt í fullri samvinnu við hv. nefnd.

Skemmst er frá því að segja að með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný heildarlög þar sem verið er að fella saman lög um mat á umhverfisáhrifum annars vegar og lög um umhverfismat áætlana hins vegar. Það eru lagðar til breytingar á skipulagslögum, lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lögum um náttúruvernd. Þetta er að einhverju leyti einhvers konar bandormur. Þetta er heildarendurskoðun.

Drögin að frumvarpinu voru unnin af starfshópi. Ég fékk þann heiður að leiða þann starfshóp sem var skipaður í janúar 2019 og skilaði af sér í janúar 2021. Í honum sátu fulltrúar mjög ólíkra hagsmunaaðila, allt frá umhverfis- og náttúruverndarsamtökum yfir í framkvæmdaraðila í gegnum Samtök atvinnulífsins. Þessi mikla og góða vinna þar, sem allir félagar í hópnum, fulltrúar, skiluðu af sér, skilaði því að það náðist sátt um þessi mál sem hefur býsna lengi verið unnið að því að ná.

Ég ætla að tæpa hér, forseti, á ákveðnum atriðum í nefndarálitinu sem ég tel nauðsynlegt að vekja sérstaka athygli á. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram ólíkur skilningur á því hvaða stöðu álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmda hefði. Ýmsir umsagnaraðilar kvörtuðu í raun yfir því að álitið myndi binda hendur leyfisveitenda en aðrir kvörtuðu einmitt yfir því að álitið væri ekki bindandi heldur einungis þau skilyrði sem í því eru. Hinn ólíki skilningur fólst sem sagt annars vegar í því að nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um að álitið sjálft sé bindandi en ekki einungis skilyrðin sem þar komu fram og hins vegar í því að hendur leyfisveitanda séu bundnar um of með því að álitið sé bindandi. Við fórum yfir þetta í nefndinni og að mati nefndarinnar er skýrt af orðalagi 2. mgr. 27. gr. að leggja skuli álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu. Svo vísum við í þessu nefndaráliti til stöðu álits Skipulagsstofnunar í greinargerð með frumvarpinu.

Eitt af því sem var leiðarhnoða í heildarendurskoðuninni var að auka aðkomu almennings og í því skyni er opnað á það mun fyrr að almenningur hafi góðan aðgang að þeim gögnum sem eru undir í þessum málum. Þá komu fram umsagnir sem byggðu á þeim misskilningi að verið væri að leggja til breytingar varðandi rétt til að kæra matsskylduákvörðun. Það fæli í sér að aðkoma almennings myndi versna. Það, forseti, er augljóst að er ekki. Frumvarpið felur í sér einföldun á málsmeðferð. Mat nefndarinnar er einkum til þess fallið að auðvelda almenningi aðkomu að ferlinu. Við áréttum það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og Skota sker Ísland sig úr sem eina landið sem hefur opna heimild til að kæra matsskylduákvarðanir efnislega og hvergi er vikið frá þeirri heimild með þessu frumvarpi.

Rætt var um það í nokkrum umsögnum hvort ætti að breyta þeim ákvæðum laga sem kveða á um að 10 mW orkuver eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum og breytingar á þeim sérstaklega því að þær framkvæmdir falla jafnframt undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Samkvæmt þeim lögum fellur breyting eða viðbót eldri virkjana óháð stærðarviðmiðum ekki undir rammaáætlun ef slík breyting er ekki matsskyld. Einhverjir umsagnaraðilar bentu á að endurnýjun eða uppfærsla vélbúnaðar innan húss gæti haft í för með sér aflaukningu sem er meira en 10 MW. Hún væri því umhverfismatsskyld samkvæmt frumvarpinu.

Við fórum yfir þetta í nefndinni og bendum á að liður 3.01 í 1. viðauka, sem tekur til orkuvera, er efnislega óbreyttur frá öðrum viðaukum og vísast um það í umfjöllun til umfjöllunar í greinargerð. Frumvarpið hefur ekki í för með sér efnisbreytingu á umhverfismatsskyldu. Við vísum þar í viðauka úr tilskipunum og svo kannski ekki síst í lögin um rammaáætlun þar sem þyrfti að ræða þessi mál ef vilji er til að gera breytingar á því. Nefndin telur að ekki séu forsendur til að breyta frumvarpinu vegna þessara athugasemda og leggur til að umhverfis- og auðlindaráðuneytið taki málið til skoðunar.

Samráðsgátt er dálítið lykilatriði í þessari heildarendurskoðun, forseti, því að hún tryggir ekki bara almenningi aðgang að gögnum og aðkomu að málinu fyrr heldur tryggir hún líka framkvæmdaraðilum og leyfisveitendun miklu betra utanumhald og samtal við Skipulagsstofnun sem er lögbæra yfirvaldið þegar kemur að því að halda utan um mat á umhverfisáætlun. Ég kem kannski betur inn á það þegar ég geri örstutt grein fyrir breytingartillögu á sérskjali því að fram kemur í nefndarálitinu að það sé lykilatriði að samlegðaráhrif séu af því að nýta þessa gagnagátt sem Skipulagsstofnun á að starfrækja og nefndin leggur mikið upp úr því að henni sé komið á.

Forseti. Við fórum síðan yfir ákveðnar breytingartillögur í þessu frumvarpi til laga sem er, eins og ég kom inn á, heildarendurskoðun sem er býsna viðamikil. Er að finna viðauka þar sem segir til um hvaða framkvæmdir eru matsskyldar og hvaða framkvæmdir eru aðeins tilkynningarskyldar. Við vinnslu starfshópsins á sínum tíma unnum við aðeins með þessa viðauka og sendum eitthvað af þeim út til umsagnar en síðan hafa komið frá aðilum innan hvers geira sem fellur undir hvert ákvæði fyrir sig ýmsar athugasemdir varðandi viðauka og ákvæði, tillögur til að breyta á einhvern hátt sem við höfum haft tilhneigingu til að líta jákvæðum augum, ekki síst að því leyti að í starfshópnum gafst ekki nægilegur tími til að hitta alla hagsmunaaðila og fara yfir þessa viðauka sem eru býsna mikið skjal og tafla. Þannig leggur nefndin til breytingartillögur varðandi stærðarmörk skóga, varðandi jarðvarma og iðjuver, varðandi framleiðslu vetnis, ákveðnar EES-gerðir eru ekki í gildi hér því að vetni er framleitt með umhverfisvænum hætti hérna, varðandi lagningu nýrra vega, gúmmíiðnað og svo málskot á þann hátt að ákveðnar ákvarðanir séu kæranlegar til úrskurðarnefndar en ekki umhverfisráðherra. Við höfum farið yfir gildistökuákvæði og leggjum til breytingartillögu hvað það varðar að lögin taki gildi 1. september 2021. Þá ætla ég að fara yfir ákveðna liði þegar ég geri rétt strax grein fyrir breytingartillögu á sérskjali, að ákveðnar greinar taki gildi síðar.

Frú forseti. Ég fór yfir þá sátt sem náðist í starfshópnum sem vann drögin sem fóru í samráðsgátt og komu svo sem frumvarp til laga frá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Það hafa verið gerðar tilraunir býsna lengi til að ná þeirri sátt og það komu athugasemdir almennt um að umsagnaraðilar fögnuðu því að sáttin hefði náðst þó að einstaka tillögur væru lagðar fram um að breyta hinu og þessu.

Sú vinna sem að baki þessu býr hefur leitt af sér sátt milli ólíkra aðila og nefndin telur mikilvægt að virða þá sátt sem náðst hefur um málið en hún endurspeglast að miklu leyti í þeim jákvæðu umsögnum sem bárust. Við í hv. nefnd leggjum því aðeins til minni háttar breytingar sem ég reifaði hér að framan og fylgja í breytingum í nefndaráliti þessu, sem undir rita ásamt þeim sem hér stendur hv. þingmenn Bergþór Ólason, með fyrirvara, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Hv. þm. Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins og eins og ég kom inn á skrifaði hv. þm. Bergþór Ólason undir álitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Forseti. Ég ætla að nýta ferðina til að gera örstutt grein fyrir breytingartillögu á sérskjali, þskj. 1677. Ég minntist á áðan hversu mikilvæg öllu málinu skipulagsgáttin væri. Kveðið er á um hana í frumvarpi til annarra laga sem eru í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, þ.e. breytingar á skipulagslögum. Ekki náðist að ljúka umfjöllun um þau lög en þar sem gáttin mikilvæga var þar þá komum við í nefndinni okkur saman um að ég myndi flytja breytingartillögu þess efnis að Skipulagsstofnun yrði falið að starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt um gerð landsskipulagsstefnu og skipulagsáætlana, þar með talið skipulag haf- og strandsvæða, umhverfismat og framkvæmdaleyfi. Nota skal gáttina við skipulagsgerð og útgáfu framkvæmdaleyfa og skulu allar umsagnir berast í gáttinni. Aðgangur að gáttinni skal vera öllum opinn og án endurgjalds.

Forseti. Ég minntist á það áðan að þrátt fyrir að við legðum það til að gildistaka laganna almennt yrði 1. september 2021 þá legg ég til í breytingartillögu við frumvarpið að einstakar greinar er lúta að gáttinni komi til framkvæmda 1. desember 2022. Það er gert með það fyrir augum að hægt sé að koma upp gátt sem virkar og að Skipulagsstofnun hafi tíma og ráðrúm til að koma þessu á í samráði við þá sem munu nýta sér gáttina svo allt virki sem best.

Forseti. Ég hef gert grein fyrir annars vegar nefndaráliti með breytingartillögum frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hins vegar breytingartillögum frá sjálfum mér og lýk þar með máli mínu. Afsakið, nei. Lengi er von á einum, forseti. Ein af athugasemdunum sem bárust við vinnslu málsins kom það seint að við gátum ekki brugðist við henni en hyggjumst gera það. Hún lýtur að þeim viðaukum sem ég nefndi hér áðan að við hefðum horft dálítið jákvæðum augum á að bregðast við. Ég legg því til, hæstv. forseti, að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og að nefndin vinni áfram með þá breytingu.