151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

umhverfismat framkvæmda og áætlana.

712. mál
[16:10]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum um þetta frumvarp sem er í raun og veru löngu tímabær endurskoðun á mikilvægum lagabálki. Eins og menn vita væntanlega var ákveðið á þessu kjörtímabili að endurskoðunin færi fram. Þessi lög eru mikilvægt tæki þar sem verið er að leita jafnvægis á milli umhverfisverndar annars vegar og auðlindanytja eða framkvæmda hins vegar. Ekki aðeins það heldur eru lögin líka tengiliður á milli stjórnvalda, framkvæmdarvaldsins og almennings við ákvarðanatöku sem er orðin þannig í nútímasamfélagi að allir þurfa að hafa sína skoðun. Þar með er verið að stuðla að málamiðlun í samfélaginu sem er af hinu góða.

Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er líka forsenda sjálfbærninnar sem við erum alltaf að sækjast eftir, hvort sem er í landbúnaði eða við annars konar framkvæmdir og auðlindanytjar. Það eru þolmörk í samfélaginu, í náttúrunni, í hagkerfinu sem við þurfum að virða. Það er æ mikilvægara eftir því sem samfélaginu vindur fram, eftir því sem mannkyninu fjölgar, eftir því sem loftslagsbreytingarnar verða alvarlegri að við bæði skilgreinum þessi þolmörk og virðum þau. Þessi lög eru meðal tækjanna til þess.

Ýmis stór verkefni eru í farvatninu; það er áframhaldandi uppbygging innviða, ég nefni bara samgöngurnar, það eru hafnir, það eru flugvellir og það eru vegir. Þar koma matsskýrslur, eins og þessi lög ramma raunverulega inn, til mikils gagns. Ég vil nefna líka byggingarframkvæmdir. Það er jú skortur á íbúðarhúsnæði mjög víða á landinu og þar kemur þetta mjög sterklega inn. Ekki vil ég gleyma orkuöfluninni sem er eitt mikilvægasta málefni samtímans út af orkuskiptum sem eru meira en nauðsynleg. Töluverð orkuþörf er fyrir hendi á Íslandi, hvernig sem menn vilja reikna hana, og hún snýr þá að framleiðslunni sjálfri. Þessi lög koma auðvitað til álita við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og hið sama gildir um flutningskerfið sem við vitum að er gallað, úrelt jafnvel á köflum, og þarf að styrkja.

Hitt er svo annað mál að samkvæmt orkustefnunni sem við lögðum fram á Alþingi er mjög mikilvægt að virkjað sé í takt við orkuþörfina en ekki verið að leggja út í einhvers konar orkuævintýri með óljósa kaupendur að orkunni. Vindorkan kemur inn hér á Íslandi með nýju mikilvægi og hún getur í sjálfu sér létt álagi af öðrum virkjunarkostum. En við förum varlega fram með hana. Ég vil nefna annan kost sem er mikilvægur í framtíðinni og það er orkuberinn vetni sem við Íslendingar getum framleitt í tiltölulega stórum stíl. Einnig það snertir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta svo mjög. Ég hefði viljað sjá eitt og annað til viðbótar við það sem rataði núna inn í lögin. Ég hef barist fyrir því að virkjanir á bilinu 1–10 mW, þá er ég að tala um vatnsaflsvirkjanir, verði matsskyldar en því er ekki að heilsa í bili og ég verð að sætta mig við það. Allt sem ég hef talið upp hér minnir á nauðsyn þessarar endurskoðunar og á mikilvægi laganna. Ég endurtek að málamiðlun ýmissa sjónarmiða gerir lögin sterkari en ella.

Ég þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem ég sit í sjálfur, fyrir vinnuna og framsögumanni, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, fyrir að hafa leitt hana. Við getum verið ánægð með góða og skilvirka vinnu nefndarinnar sem skilar endurskoðuðum ágætum lögum sem var jú upphaflega áætlunin með allri þessari vinnu.