151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

umhverfismat framkvæmda og áætlana.

712. mál
[16:15]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil koma örstutt upp í tilefni þess að álit umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um umhverfismat og framkvæmd áætlana er hér kynnt af framsögumanni, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, með miklum ágætum og skilmerkilega.

Þetta er mikið framfaramál. Hér er verið að sameina lagabálka og aðlaga aðra í þágu skilvirkni við umhverfismat framkvæmda og áætlana. Frumvarpið felur í sér einföldun á málsmeðferð sem er ekki síst til þess fallin að auðvelda almenningi aðkomu að ferlinu. Aðkoma almennings að umhverfismatsferli framkvæmda er enn betur tryggð. Ég var á nefndarálitinu og samþykki það fyrirvaralaust en hef þó ofurlítinn vara á mér sem ég mun kannski koma inn á en hann er ekki stór.

Hv. framsögumaður kom inn á að samkvæmt frumvarpinu muni Skipulagsstofnun starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt, sem ég tel vera bráðsnjalla og nauðsynlega í okkar nútíma- og tæknivædda samfélagi, þar sem hægt verði að fylgjast með framkvæmdum, hvernig ferli þróast og ákvarðanatökur liggja fyrir, og koma á framfæri athugasemdum og/eða hugmyndum.

Herra forseti. Með frumvarpinu er ekki verið að ganga á rétt umhverfis og náttúru, þvert á móti. Þó að í þessu sé fólgin einföldun ferla er enn markvissar unnið að sjálfbærri þróun, heilnæmu umhverfi og umhverfisvernd með umhverfismati þeirra framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Þetta er í anda þeirra áhersluatriða sem við í Samfylkingunni berjumst fyrir. Við erum uppbyggingarflokkur, atvinnulífsflokkur sem vinnur að nýsköpun með grænum áherslum þar sem unnið er í sátt við umhverfið, samkvæmt viðurkenndum ferlum og af virðingu við náttúru. Að sjálfsögðu er það svo að maðurinn er hluti af þessari náttúru og mótaður af henni og til þess þurfum við að taka tillit við alla okkar innviðauppbyggingu. Við erum alltaf að styrkja okkur sem samfélag, alla okkar þætti í atvinnu, en það verður að gera af tillitssemi við náttúruna og umhverfið og við gerum sáttmála um það með lögum eins og þessum.

Eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á varðar þetta innviðauppbyggingu á öllum sviðum, orkumál, samgöngur og atvinnulíf til sjávar, til stranda, til sveita. Þar er margt uppi um þessar mundir; vindur, vatnsföll, jarðvarmi og enn frekari nýting jarðalaganna.

Fyrirvari minn lýtur að því að í greinargerð frumvarpsins kemur m.a. fram að í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og Skota, eins og hv. framsögumaður drap á, er Ísland eina landið sem hefur opna heimild til að kæra matsskylduákvörðun efnislega. Frumvarpið hleypir þannig heimdraga. Þarna hefði ég talið að við værum í dauðafæri til að samræma okkur Norðurlöndum. Ég tel að engin ástæða sé til annars en að þetta sé með samræmdum hætti eins og gerist og gengur varðandi Norðurlöndin og að hér stígum við skrefið til fulls þannig að við séum ekki með kerfi sem sker sig svo úr. Þarna var dauðafæri sem ekki var notað. Hv. framsögumaður hefur skýrt frá því að starfshópurinn sem vann að þessu hafi komist að niðurstöðu og að niðurstaðan sé auðvitað, eins og gjarnan vill verða, ákveðin málamiðlun og lengra hafi ekki verið komist.

Það er nú svo, herra forseti, að í skipulags- og framkvæmdamálum á ýmsum sviðum, ég nefni byggingarreglugerðir, getum við lært ýmislegt af nágrannaþjóðunum. Við eigum að tileinka okkur samræmingu á þessum sviðum því að samlegðaráhrifin eða hagkvæmnisrökin eru svo sterk. Við erum að flytja á milli landa einingar í byggingar, stórar einingar og smáar, og það er bagalegt þegar talsverðu munar varðandi kröfur og reglugerðir í því tilliti. Það er óþarfi og það eru ekki rök fyrir því í rauninni þó að í stöku tilvikum kunni að vera rök fyrir frávikum varðandi Ísland og önnur lönd. Ég nefni það sem okkur er kannski hugstætt núna en það eru jarðhræðingar. Við eigum ekki að vera á þeim stað á Íslandi að telja að við gerum flest betur en aðrar þjóðir, að við séum best í heimi. Við höfum lært það af biturri reynslu og dýrri að svo er ekki. Við höfum líka lært af reynslu okkar og af aðild að EES að þar höfum við tínt upp ýmsan gullmolann, bæði hvað varðar réttindi og ýmis framfaramál.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en fagna því að við séum komin skref áleiðis og að við séum að feta okkur út úr þessum kerfislega frumskógi sem við höfum verið í. Við höfum heyrt og séð og upplifað óskilvirkt leyfis- og reglugerðarumhverfi og fundið á eigin skinni og upplifað í samfélaginu tafir á framkvæmdum og endurtekið mat og kærur varðandi mikilvæg framfaramál á nokkrum landsvæðum. Ég nefni svo það sem mér er efst í huga, Vestfirði og brýn verkefni þar.

Ég vil að lokum þakka samnefndarmönnum mínum fyrir ágæta vinnu við þetta verkefni og ekki síst framsögumanni, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, fyrir einurð og mikinn áhuga fyrir málefninu og yfirvegun og þolgæði. Hann sat í starfshópi sem kom með veigamiklar tillögur og hann tapaði aldrei einbeitingu og við erum nú komin með þetta frumvarp til kynningar fyrir þingheim og til þóknanlegrar meðferðar.