151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

stafræn pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

625. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef engar stórar áhyggjur af því að menn safni einhverjum upplýsingum svo fremi að það séu ekki viðkvæmar persónuupplýsingar. Ég hef auðvitað áhyggjur af öllu þessu stafræna kerfi. Ég er gamaldags pappírsmaður í eðli mínu. Ég hef alltaf áhyggjur af því þegar við söfnum miklum upplýsingum um einstaklinga í einhverju pósthólfi, rafrænu pósthólfi. Ég hef bara stórar áhyggjur af því. Og við getum verið nokkuð vissir um það, hv. þm. Birgir Þórarinsson, að allt lekur þetta meira og minna út einhvern tímann. Það er bara nútíminn, eins og sagt er.

Einhvern tíma keypti ég rándýran Montblanc-blekpenna í útlöndum og ég fæ alltaf einhver skilaboð frá þeim. Þeir safna upplýsingum um hverjir hafa keypt slíka penna. Mér er að vísu nokk sama um það, en ef það eru viðkvæmar upplýsingar hef ég meiri áhyggjur af því. En ég held að slík fyrirtæki hafi ekki aðgang að slíku en þeir safna upplýsingum í gegnum allt þetta, um hvaða áhugamál við höfum o.s.frv. og senda okkur skilaboð út frá því. Það er bara einhver nútímaveruleiki, en vissulega verður þetta þannig að slíkt lekur. Það er brotist inn í þetta og það verður, ég segi ekki daglegt brauð en reglulegt að við þurfum að reyna að svara fyrir eitthvað slíkt í framtíðinni.