Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Málið var kallað inn til nefndar eftir 2. umr. og fjallaði nefndin um málið að nýju og skoðaði sérstaklega samspil starfskostnaðar og annarra starfskjara þingmanna annars vegar og ráðherra hins vegar. Við, sem undir þetta álit skrifum, áréttum að lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað setja reglum um starfskostnað og önnur starfskjör ráðherra veigamiklar skorður.

Mig langar að ítreka það hér, af því að þetta var rætt aðeins við 2. umr., og minna okkur á að lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað setja reglum um starfskostnað og önnur starfskjör ráðherra veigamiklar skorður því að í lögum um Stjórnarráð Íslands segir í 2. mgr. 27. gr. að ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins setji almennar reglur um starfskostnað og önnur starfskjör ráðherra í samráði við forsætisráðherra. Í þeim reglum skuli m.a. gæta samræmis við rétt alþingismanna og formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi til greiðslu kostnaðar vegna stjórnmálalegra starfa þeirra.

Þetta þýðir með öðrum orðum að þegar Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, eins og við erum að leggja til að gert verði hér, ber ráðherra að taka reglur um starfskostnað ráðherra til endurskoðunar til að tryggja að þær samræmist þeim breytingum sem Alþingi hefur ákveðið.

Í samræmi við þetta, eins og kom líka fram fyrr í umræðunni, hefur forsætisráðuneytið, og nú síðast fjármála- og efnahagsráðherra við 2. umr. málsins, staðfest að unnar verði tillögur að breytingum á reglunum sem feli í sér sambærilegar takmarkanir á endurgreiðslu ferðakostnaðar ráðherra í aðdraganda kosninga og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur áherslu á að viðeigandi endurskoðun og samræming reglna fyrir ráðherra verði unnin fljótt og vel og þingið upplýst um framgang málsins.

Forseti. Að því sögðu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit skrifa auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Jón Þór Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Andri Thorsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.