151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[20:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég kemst nokkurn veginn að sömu niðurstöðu og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson en frá öðru sjónarhorni, þ.e. ég er samþykkur þessu frumvarpi, mér finnst það augljóst og myndi vilja ganga lengra. Ég sé ekki tilganginn í því að fella út þá sem eru ekki að sækjast eftir endurkjöri. Það er alger óþarfi að gera greinarmun þar á milli. En hvað varðar ráðherrana þá tel ég augljóst að hægt er að haga reglunum sem eru settar í ráðuneytunum á sama hátt og þeim sem þingmönnunum er gert að sæta — og gera það vel. Hins vegar er hægt að klúðra því eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson útskýrir svo sem ágætlega og ef það gerist þá er ég algerlega sammála honum. En það er ekki tilgangur þessa frumvarps að mínu mati. Tilgangurinn er sá að ráðherrar þurfi að gangast undir sömu skilyrði og þingmenn sem eru þau að endurgreiða má alþingismanni ferðakostnað á þessu tímabili ef um er að ræða viðburði eða ferðir á vegum Alþingis eða þegar Alþingi er enn að störfum eða þegar þingmaður tekur þátt í störfum þess. Þetta þýðir að ef ráðherra er á einhverju flakki á ráðherrabíl og stoppar við á einhverjum kosningafundi, eins og hefur gerst alloft, á meðan hann er kannski að heimsækja einhverja skóla í leiðinni — fyrir kosningarnar 2016 eða 2017, þetta rennur allt saman, varð ég var við bíl þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, á kosningafundi í Ólafsvík eftir að hafa hitt hann í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundafirði þar sem hann var þá í heimsókn sem ráðherra en nýtti ferðina til að fara á kosningafund líka á ráðherrabílnum. Það má ekki. Það er ekki hægt að taka það sem hluta af ferð að fara í kosningaerindagjörðir á ráðherrabíl og ætlast til þess að ekki þurfi að borga fyrir það sem hlunnindi á hefðbundinn hátt. Ég man eftir því þegar þáverandi þingmaður Brynhildur Pétursdóttir var á árum áður í kjördæmaaferð austur á land og nýtti tímann líka til þess að skreppa aðeins til ættingja, hún sagði þessa sögu í fjölmiðlum minnir mig. Hún vildi að sjálfsögðu borga sérstaklega fyrir þann hluta af því að þetta var ekki á vegum þingsins og það var rosalega erfitt. En eftir því sem mér skilst þá gekk það upp, hún borgaði þann hluta og það er nákvæmlega þannig sem þetta á að virka fyrir ráðherrana líka. Ef það verður ekki gert þá eru ráðuneytin einfaldlega að fara gegn þessu frumvarpi og það er alvarlegt mál og eitthvað sem þingið á að fylgjast mjög vel með og bregðast við ef það er ekki gert rétt.