151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[21:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins inn á samfélagsþjónustu almennt sem úrræði utan fangelsa í staðinn fyrir óskilorðsbundna fangelsisdóma. Ég tek það reyndar fram, og tek undir orð hv. þm. Bergþórs Ólasonar í andsvari, að auðvitað eigum við að tryggja nægt fjármagn til reksturs fangelsa í landinu. Úrræði af þessu tagi eiga að skoðast í víðu samhengi, ekki endilega vegna fjárskorts til rekstrar og byggingar fangelsa í landinu. Það er náttúrlega eitthvað sem á að vera ágætlega fjármagnað. Það er bara hluti af réttarríkinu sem við búum í. Þó hefur þróun síðustu ára falið í sér aukna notkun þessara úrræða, þessa samfélagsþjónustuúrræðis.

Það er kannski líka rétt að benda á það í upphafi, herra forseti, að varðandi samfélagsþjónustu — sem er skilgreind á vef Fangelsismálastofnunar og þar er ýmsum spurningum svarað og fróðlegt að skoða hvaða skilyrði þarf að uppfylla, hvernig reglurnar eru o.s.frv. — þá megum við heldur ekki gleyma því að hinum megin er einhver sem tekur að sér að taka á móti þeim sem eru í samfélagsþjónustu. Samfélagsþjónustan felur í sér tímabundið ólaunað starf og einhver þarf þá að veita starfið og það þarf náttúrlega að vera aðstaða og allt til þess. Það má heldur ekki gleyma þeim þætti málsins.

Einstaklingum sem afplána dóma sína með samfélagsþjónustu hefur fjölgað síðustu ár. Það sem er kannski mikilvægast í því frá mínu sjónarhorni séð er að hugsa hvernig líklegast sé að menn geti staðið sig þegar þeir koma aftur út í samfélagið. Það er mjög mikilvægur þáttur í þessum málaflokki að mínu mati. Reynslan hefur sýnt að ef menn eru lokaðir inni til skamms tíma þá er tíðni þess að þeir komi aftur í fangelsi, svokölluð ítrekunartíðni, samkvæmt rannsóknum hærri en hjá þeim sem gegna samfélagsþjónustu. Það kemur fram af hálfu fangelsismálayfirvalda að samfélagsþjónusta hafi reynst vel og aðeins u.þ.b. 16% þeirra sem afplána refsidóma sína á þann veg brjóti af sér á ný og það er lág tíðni. Einnig hafa verið auknir möguleikar til að afplána hluta fangelsisvistar í svokölluðum opnum fangelsum og það hefur líka skilað árangri í því að menn brjóti síður af sér að lokinni afplánun.

Það er mikilvægt að við höfum sem besta þekkingu á árangri fangelsiskerfa í því að hindra frekari glæpastarfsemi, það er afar mikilvægt að mínum dómi. Fangelsiskerfin eru mismunandi og hafa sínar sérstöku stefnur eftir því hvar menn eru. Ísland og Noregur eru talin hafa refsistefnu sem leggur áherslu á endurhæfingu fanga en í Bandaríkjunum er t.d. refsistefnan harðari og skilar föngum ekki endilega endurhæfðum út. Fangelsismálayfirvöld, og mér finnst þetta mikilvægt, þurfa að hafa góða þekkingu á því hvaða tegund refsingar skili sér best. Svokölluð ítrekunartíðni lýsir árangri fangelsiskerfa í að hindra frekari glæpastarfsemi og ítrekunartíðni afbrota er eiginlega eina leiðin til að meta árangur ólíkra refsikerfa og gefur vísbendingar um gæði tiltekins refsikerfis. Þetta kemur fram í afbrotafræðunum.

Herra forseti. Þegar ég var að kynna mér þetta frumvarp og lesa mér til um þetta, ég verð að segja að ég hef verið áhugasamur um að kynna mér til hlítar samfélagsþjónustu hvað þetta varðar, rakst ég á nýlega BA-ritgerð við Háskóla Íslands eftir Ólafíu Laufeyju Steingrímsdóttur. Í ritgerðinni er athyglisvert yfirlit yfir fræðilegar rannsóknir á árangri fangelsiskerfa í að hindra frekari glæpastarfsemi. Þar er vikið sérstaklega að samfélagsþjónustu og margt mjög athyglisvert sem kemur þar fram. Ef ég leyfi mér að grípa aðeins niður í hana, með leyfi forseta, þá segir þar:

„Samfélagsþjónusta hefur verið meira notuð sem úrræði í stað fangelsunar síðustu ár. Hún er einnig almennt talin hagkvæmari en að setja fólk í fangelsi og er því mikilvægt að athuga hver áhrif hennar eru á ítrekunartíðni.“

Ítrekunartíðni er, eins og áður segir, árangur fangelsiskerfanna í að hindra frekari glæpastarfsemi.

„Flestar rannsóknir benda til þess að samfélagsþjónusta lækki ítrekunartíðni ekki marktækt borið saman við fangelsun. Þannig hafa rannsóknir ýmist sýnt fram á engan mun á milli fangelsis og samfélagsþjónustu (sjá t.d. Killisa, Aebi og Ribeaud, 2000) eða þá að samfélagsþjónusta sé með lægri ítrekunartíðni en munurinn sé þó ekki marktækur (Muliluvuori, 2001; Spaans, 1998). Þá kom fram í rannsókn Spaans (1998) að tilhneiging er til þess að einstaklingar sem afplána með samfélagsþjónustu fremji ekki jafn alvarleg brot og þeir sem eru sendir í fangelsi sem getur vissulega haft áhrif á lága ítrekunartíðni þessa hóps.

Rannsókn Baumer o.fl. (2001) á ítrekunartíðni afbrota á Íslandi sýndi mikilvægar niðurstöður hvað þetta varðar. Þess má geta að rannsóknin var gerð á tímabilinu þegar samfélagsþjónusta var einmitt að byrja hérlendis og skoðaði ítrekunartíðni þeirra sem luku samfélagsþjónustu á Íslandi á árunum 1995 til 1998.“ — Það er orðið svolítið langt síðan. — „Niðurstöðurnar voru að tíðni ítrekunar var almennt hæst meðal þeirra sem luku afplánun í fangelsi.“

Rétt er að hafa það í huga og þetta er rannsókn sem gerð var hér á Íslandi.

„Lægst var hún meðal þeirra sem luku afplánun með samfélagsþjónustu þegar litið er á þá sem lentu í nýjum afskiptum lögreglu eða hlutu nýjan dóm innan þriggja ára. Þeim sem luku samfélagsþjónustu var fylgt eftir í þrjú ár eftir fullnustu og voru 17% þeirra fangelsaðir á ný, 22% hlutu nýjan dóm og af 55% hafði lögreglan ný afskipti.

Rannsókn Graunbøl o.fl. (2010) leiddi svipað í ljós. Af þeim sem hófu samfélagsþjónustu á Íslandi árið 2005 höfðu 16% fengið nýjan dóm innan tveggja ára.“

Þetta er lág tíðni og ánægjuleg og vissulega þess virði að þetta sé skoðað. Við ákvarðanatöku í þessum efnum er mikilvægt að menn ræði við fræðimenn á þessu sviði sem hafa eytt kannski hálfri ævi sinni í að rannsaka þessi mál, afbrotafræðinga og fleiri. Það er mikilvægt að menn hlusti á þá sem þekkja kannski best til í þessum efnum.

Í þessari ritgerð er talað um bandarískar rannsóknir sem eru mjög athyglisverðar. En við þekkjum að refsistefnan í Bandaríkjunum er harðari en hér og í Noregi.

„Á Íslandi er fangelsisrefsingum ekki beitt nema nauðsyn krefjist og þær hafi ákveðið markmið. Þetta viðhorf endurspeglast í fangelsiskerfinu á þann hátt að fangelsin eru bæði lítil og fá. Fangelsin hafa verið skipulögð út frá órefsimiðuðum aðferðum sem eiga að stuðla að endurhæfingu fanga og tryggja dómþolum farsæla enduraðlögun að samfélaginu (Baumer o.fl., 2002; Pakes og Gunnlaugsson, 2018). Vegna fjárskorts“ — sem er mikilvægt að við vinnum á til frambúðar — „hefur þó lögbundnum verkefnum í fangelsismálum landsins ekki verið nægilega vel sinnt.“

Þetta kemur m.a. fram hjá Helga Gunnlaugssyni, prófessor í afbrotafræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.

„Á allra síðustu árum hafa gæði í þjónustu við fanga aukist. […] Í ljósi þessa hefur gengið vel á Íslandi að endurhæfa fanga og halda þeim frá fangelsum.“ — Þetta sýndu rannsóknir frá 2001 og rannsóknir frá 2010. — „Í ljósi þessara niðurstaðna er almennt hægt að álykta að refsistefna landanna hefur óneitanlega áhrif á árangur landanna í að endurhæfa brotamenn og þar af leiðandi líkur á að dómþoli brjóti af sér á nýjan leik.“

Þetta er mitt innlegg í þetta mál, herra forseti. Ég ítreka eins og ég sagði áðan að auðvitað eiga stjórnvöld að sjá til þess að fjármunir séu til staðar til að reka fangelsiskerfið á Íslandi og tilefni þessa máls er að stytta biðlista tímabundið til fullnustu refsinga. Ég hefði viljað sjá að menn ræddu þetta á víðari grundvelli eins og ég nefndi hér í upphafi.

Niðurstaða þessarar ágætu samanburðarrannsóknar sem ég vitnaði í eftir Ólöfu Laufeyju Steingrímsdóttur er sú að samfélagsþjónusta hefur ekki aukið glæpastarfsemi, ef eitthvað er hefur hún lækkað hana. Hún er einnig mun ódýrari kostur fyrir samfélagið og betri fyrir brotamenn.