151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[21:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að fjalla stuttlega um þetta frumvarp til breytinga á lögum um fullnustu refsinga og ræða það svolítið út frá minni reynslu í starfi á þessu sviði sem lögreglustjóri, þar sem ég hef komið að þessu máli mjög oft og horft á hvernig þetta hefur gerst. Lagabreytingin sjálf er í fyrsta lagi tímabundin, taka verður mið af því að hún er tímabundin til 2024. Það eru þrjú ár þannig að það er ekki eins og verið sé að breyta þessu alfarið. Reyndar hefur þetta verið að rýmkast mjög mikið, þ.e. þeir dómþolar sem fá dóma sem eru undir einhverju viðmiði — í þessu frumvarpi eru það 24 mánuðir í fangelsi, þar sem heildarrefsingin er 24 mánuðir, óskilorðsbundið eða skilorðsbundið — eiga nú kost á að fá fullnustu dóms síns með samfélagsþjónustu. Áður var þetta talsvert lægra viðmið, 12 mánuðir, og fyrir löngu síðan voru það þrír mánuðir. Þetta hefur sem sagt verið að rýmkast. Er það til góðs eða ekki? Er það til marks um að fangelsiskerfið sinni ekki verkefni sínu? Er sem sagt að flæða út fyrir úr þessu keraldi?

Ég nefni það að fangelsi hér hafa mörg hver verið lögð niður, þessi litlu fangelsi, og sérstaklega þegar Hólmsheiðin var tekin í notkun. Þá voru mörg lítil og ófullnægjandi fangelsi lögð niður þannig að fjölgunin varð kannski ekki svo gífurleg. Sú aðgerð í fyrra að leggja niður fangelsi á Akureyri hefur auðvitað áhrif á þetta. Þetta hefur allt áhrif.

Svo vil ég koma örlítið inn á þær kröfur sem gerðar eru til fangelsa. Þetta eru orðnar miklar kröfur og það er kannski eðlilegt. Við viljum auðvitað gera vel við fanga þannig að sem mestar líkur séu á því að þeir fái betrun í fangelsum, ekki er hægt að deila á það. En erlendir fangar sem ég hef heyrt í og hafa dvalið í íslenskum fangelsum hafa talað um það sem geysilegan lúxus miðað við það sem þeir þekkja úr sínu heimalandi. Kannski má aðeins íhuga að kostnaðurinn í fangelsiskerfinu er orðinn gífurlega mikill og má spyrja sig hvort fangelsiskerfið sé vanfjármagnað að þessu leytinu til.

Hlutfall fanga í samfélaginu er samt mjög lágt á Íslandi, ef ég man töluna rétt, þannig að við eigum alveg að geta sinnt þessum málaflokki vel. Við eigum að geta sinnt honum vel. Þegar dómar fyrnast, eins og hefur færst í vöxt miðað við það sem stendur í greinargerðinni, hefur það gífurlega neikvæð áhrif, mjög neikvæð áhrif, herra forseti, og ekki bara á dómþolann sem hrósar auðvitað happi og er ánægður með að losna við refsinguna. En meiri líkur eru á að hann læri ekki af þessu. Þannig að þessi sérstöku varnaðaráhrif sem oft er talað um eru síður fyrir hendi þegar um þetta er að ræða þó að til séu undantekningar. Þessi almennu varnaðaráhrif eru þá fyrir róða vegna þess að þetta hvetur menn, eða letur þá alla vega ekki, sem horfa á þetta og sjá að menn sleppa, til að ganga áfram á afbrotabraut sinni. Það er því ekki gott mál að láta dóma fyrnast.

Ég átta mig alveg á því að þarna er verið að leysa ákveðið vandamál og ná niður þeim fjölda dómþola sem bíður eftir að ljúka refsivist sinni og verið er að færa markið upp í 24 mánuði. Ég spyr náttúrlega líka, eins og kom fram í andsvörum áðan: Hvaða dómar eru þetta? Þarna er talað um almannahagsmuni og að almannahagsmunir mæli ekki gegn því, og að lagt sé mat á það hvaða dómar það séu sem uppfylli þessi skilyrði. Jú, vissulega þarf að gera það. Við sem samfélag viljum auðvitað ekki horfa upp á að t.d. afbrotamenn sem fremja grófa ofbeldisglæpi þar sem refsingin er kannski innan þessara marka, 24 mánaða fangelsi, fari svo að mála girðingar á grænum svæðum höfuðborgarinnar í samfélagsþjónustu. Ég treysti því að girt sé fyrir það með þessu orðalagi um almannahagsmuni. Kannski fá þeir sjaldnast refsingu sem er undir þessum 24 mánuðum, en auðvitað þarf að hafa í huga að slíkt gerist ekki.

Ég var að tala um varnaðaráhrif refsinga hér áðan. Við verðum alltaf að hafa það í huga, þegar við fjöllum um þennan málaflokk, að við ætlumst til að fólk í samfélaginu líti þannig á refsilöggjöfina að hún komi í veg fyrir að menn freistist til að fremja afbrot. Það eru þessi almennu varnaðaráhrif og svo þessi sérstöku varnaðaráhrif þegar refsingar eru lagðar á til að slá á puttana á viðkomandi brotamanni. Ef það er mikil eftirgjöf, herra forseti, og ég hef sögur af þessu og dæmi um það, þá halda menn áfram að brjóta af sér. Það var einn aðili fyrir margt löngu síðan, sem var, eins og stundum er, sífellt að aka undir áhrifum áfengis. Hann lenti í ákeyrslum og lét sér aldrei segjast. Hann fékk dóma, það var bara slegið á puttana á honum og hann sektaður og sviptur ökuréttindum en hann hélt nú bara áfram.

Þetta er saga sem allir kannast við sem hafa unnið í þessu kerfi, að menn láta sér ekki segjast. Ég held að varðandi brot eins og ölvunarakstur þurfi ansi mörg skipti og margar ítrekanir áður en viðkomandi aðili fær að horfast í augu við fangelsisrimlana sjálfa. Þarna er kannski verið að fjölga þeim skiptum sem viðkomandi getur framið álíka brot. Þessi maður sagði mér frá því að hann hefði verið búinn að aka ítrekað ölvaður, búinn að fá marga dóma og hunsaði þetta allt saman. Sektirnar skiptu engu máli, sviptingin skipti engu máli. Svo loksins fékk hann fangelsisdóm en hann var skilorðsbundinn þannig að hann fór ekki inn. Hann endurtók leikinn og loks fékk hann 30 daga fangelsi. Hann trúði því náttúrlega ekki að hann yrði settur inn en það fór nú samt svo að honum var stungið inn í þessa daga. Hann sagði við mig sérstaklega að þá fyrst hefði hann vaknað upp við vondan draum. Hann hefði aldrei lært þetta nema hann hefði í raun og veru þurft að sjá hinn ógurlega alvarleika að vera kominn í fangelsi fyrir þetta. Þegar hann vaknaði upp við þann vonda draum fór hann að hugsa ráð sitt. Ég held að viðkomandi aðili hafi nú hætt áfengisdrykkju eftir þetta og ekki gerst brotlegur, alla vega ekki á þessu sviði. Þannig að í vissum tilvikum má auðvitað ekki vera of mikil eftirgjöf, herra forseti. Sumir bara læra ekki fyrr.

Rétt í lokin er það tvennt sem ég ætlaði að tala um áður en ég klára. Það er þetta með dóma sem fyrnast og dóma sem dragast, þ.e. afplánun sem dregst kannski árum saman. Fjölmörg dæmi eru um að menn séu kallaðir inn í fangelsin kannski þremur, fjórum árum eftir að dómur fellur og jafnvel síðar. Dómur fellur kannski ekki fyrr en eftir eitt eða tvö ár frá broti og það geta því liðið kannski fimm eða sjö ár þangað til menn loksins fara að afplána refsingu sína. Þá er líf þeirra gjörbreytt, þeir eru löngu hættir að neyta áfengis eða vímuefna, sem þeir gerðu kannski áður, og komnir með fjölskyldu og börn. Það kemur mjög hart niður á þessum hópi þegar refsingar dragast svona mikið. Þess vegna held ég að þetta frumvarp sé ágætt. Við verðum samt að huga að því að fjármagna fangelsiskerfið þannig að það geti sinnt hlutverki sínu.

Ég er alls ekki á móti frumvarpinu, ég held að þetta sé gott mál en ég ætla nú samt að ljúka máli mínu á einu atriði í viðbót. — Nú finn ég það ekki, en það varðar hugleiðingar í greinargerð um hver eigi að taka ákvörðun um samfélagsþjónustu. Ég er ansi hreint skotinn í þeirri hugmynd að það yrði ekki stjórnvaldsákvörðun og ekki ákvarðað af Fangelsismálastofnun heldur af dómstólum. Ég hef lengi verið hrifinn af þeirri hugmynd og ég tek undir orð í greinargerð, sem ég finn nú ekki núna, um að skoða eigi það vandlega hvort dómari sé þá í stakk búinn til að tiltaka þegar hann ákveður refsinguna hvort viðkomandi brotamaður eða dómþoli eigi þess kost að ljúka þessu á einhvern hátt annan en með refsivist, þ.e. samfélagsþjónustu eða rafrænu eftirliti eða einhverju slíku. Ég hrifinn af þeirri hugmynd.