151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[21:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem þessi tillaga hefur verið til umfjöllunar. Hún er að mínu viti skiljanleg en hún er um leið þungur dómur um getuleysi stjórnvalda í þessum málaflokki, það verður að segjast eins og er. Dæmdir menn bíða í dag lengi eftir því að komast í afplánun eftir að dómur fellur. Samkvæmt því sem fram hefur komið í umfjöllun og umræðu um þetta mál er meðalbiðtími eftir afplánun nú í mánuðum talinn sjö mánuðir og í einhverjum tilvikum lengri. Við sjáum, eins og rakið er í umfjöllun um þetta mál og í umræðum hér í þingsal, að dómar fyrnast. Hvað þýðir það að dómur fyrnist? Það þýðir að það líður svo langur tími frá því að dómur fellur þar til menn eru boðaðir í afplánun að dómurinn hefur fyrnst með þeim afleiðingum að menn þurfa ekki að afplána dóminn.

Hér er sem sagt verið að leggja það til að hægt verði að afplána allt að tveggja ára þunga fangelsisdóma í samfélagsþjónustu. Þetta er að vísu aðeins heimildarákvæði en það veldur því engu að síður að þar undir munu falla dómar fyrir alvarleg brot og engir dómar eru sérstaklega undanskildir í þessari tillögu. Dómsmálaráðherra er í máli þessu að bregðast við biðlistum í fangelsi með því að leggja fram frumvarp um að auka samfélagsþjónustu sem taki þá til allt að tveggja ára þungra dóma. Í greinargerð með frumvarpinu er rakið hvers vegna sú leið er farin, sem blasir auðvitað við, og það er gert til þess að stytta boðunarlista í fangelsi sem hefur lengst með þeim hætti síðustu ár að biðtími eftir afplánun hefur lengst allverulega. Það væri kannski í einhverju samhengi brosleg tilhugsun að það séu biðlistar á Íslandi eftir því að komast í fangelsi ef hagsmunirnir þar að baki væru ekki svona alvarlegir. Biðlisti í fangelsi er auðvitað algerlega absúrd staða, sér í lagi þegar hann er talinn í þetta löngum tíma. Viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra við þessum vanda eru þess vegna eðlileg og þau eru skiljanleg en með þeim er hins vegar ekki verið að ráðast að rót vandans heldur bara verið að klippa aftan af allt of löngum boðunarlista í fangelsi.

Af því að það kom fram áðan í umfjöllun að hér væri um heimild að ræða þá skiptir máli að það er engin umfjöllun í þessu máli um refsipólitík eða dóma á breiðari grundvelli sem hefur þau áhrif að verið er að galopna á heimildir Fangelsismálastofnunar í þeim efnum. Að því sögðu er það eindregin skoðun mín að samfélagsþjónusta sem úrræði í fangelsismálastefnu og refsipólitísk sé mjög af hinu góða. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að dómarar ættu að hafa heimild til að dæma menn í samfélagsþjónustu. Það er hins vegar ekki það sem verið er að leggja til hér sem mér hefði þótt eðlilegt skref almennt séð, sér í lagi í þessari stöðu, að stíga. Þess í stað er verið að leggja fram þessa tillögu núna sem boðar það að fara með allt að tveggja ára þunga dóma í samfélagsþjónustu án þess að löggjafinn sé að stíga nein einustu skref í þeim efnum að ramma inn hvers eðlis þau brot eru sem þarna eiga að falla undir. Mér finnst eðlilegt að löggjafinn rammi inn með einhverjum hætti hvað eigi að falla undir annað en bara tímalengd dómsins.

Ég lít svo á að hér séum við að færa Fangelsismálastofnun of miklar heimildir, þrátt fyrir að ég beri fullt traust til þeirrar stofnunar, því að það eru jú þrátt fyrir allt dómstólarnir í landinu sem fara með dómsvaldið. Það er þekkt sjónarmið og viðmið og hugmyndafræði um fangelsisdóma að til þess að dómur hafi tilætluð áhrif, annars vegar fyrir þann dæmda en hins vegar fyrir samfélagið í heild sinni, þá þurfi sakborningur og hinn dæmdi að geta setið þann dóm af sér sem hann hlýtur sem fyrst. Þetta er atriði sem hefur samfélagslega þýðingu en hefur líka mikla persónulega þýðingu og varðar mannréttindi sakbornings, að hann fái að afplána refsingu sem fyrst. Dragist það mjög lengi getur það hæglega gerst að líf sakbornings sé á allt öðrum og betri stað þegar loks kemur að afplánun og afplánun þá í einhverjum tilvikum jafnvel farin að vinna gegn upphaflegu markmiði sínu, því að biðin felur auðvitað í sér viðbótarrefsingu. Líf manna er, eins og ég held að allir sjái og skilji þegar þau staldra við og hugsa málið, í algjörri biðstöðu á meðan afplánunar er beðið.

Eins og rakið er í máli þessu og fram hefur komið þá er staðan í dag sú að dæmdir menn bíða í einhverjum tilvikum mánuðum saman eftir að sitja dóma af sér og fram hefur komið að í lok ársins 2020 hafi 638 menn beðið eftir því að hefja afplánun, 638 manns á litla Íslandi. Þessi staða í fangelsismálum helst mjög í hendur við annað vandamál sem er málsmeðferðartími innan réttarkerfisins. Umræðan um þann vanda er ekki ný. Sú staða er því miður til marks um það í mínum huga að skynsamleg og heilbrigð refsistefna virðist einfaldlega ekki vera ofarlega á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Það er ofboðslega miður að það sé engin viðleitni í þessu máli eða öðrum sem hér hafa verið lögð fram af hálfu stjórnarinnar og í þeim tölum sem við sjáum um stöðuna innan réttarkerfisins til þess að leggja fram heildarsýn og hugmyndafræði til að eiga við þetta vandamál.

Í umræðum um síðustu fjármálaáætlun átti ég samtal við hæstv. dómsmálaráðherra um þetta efni og aftur í umræðu núna um fjármálaáætlun. Ég get ekki séð að ég sjái neinar grundvallarbreytingar sem munu ná að vinna markvisst á þessum vanda og það er mikið áhyggjuefni. Hérna er vissulega verið að leggja til tímabundna aðgerð en þegar við stöldrum við og rýnum hverju það sætir, af hvaða ástæðum þessi tillaga er fram komin, er það vegna þess að stjórnvöld hafa enga stjórn á fangelsismálum. Fram til þessa hefur heimildin verið sú að það megi afplána allt að 12 mánaða fangelsisdóma með samfélagsþjónustu. Ég er ekki að halda því fram að það eigi ekki að fara ofar en 12 mánuði í því sambandi en nú á að færa þetta mark upp í 24 mánuði þannig að hægt verði að afplána allt að tveggja ára fangelsisdóma með samfélagsþjónustu og mig langar í því sambandi að nefna hver meðalþyngd dóma í alvarlegum sakamálum er á Íslandi. Það er auðvitað þekkt að dómar á Íslandi, eins og á Norðurlöndunum öllum, eru í neðri mörkum refsirammans. Stór hluti dæmdra refsinga mun með viðmiðinu um tvö ár falla undir þessa heimild án þess að löggjafinn sé með einhverjum hætti að reyna að hafa skoðun á því eða ramma það inn hvaða brot falli hér undir. Það er engin umfjöllun um eðli eða alvarleika brota. Þá langar mig aftur að nefna það sem ég var að koma inn á, hver meðalþyngd dóma í íslensku réttarkerfi er og nefni í því sambandi eitt alvarlegasta brot samkvæmt hegningarlögunum sem er nauðgun. Dæmdir dómar fyrir nauðgun á Íslandi eru á bilinu tveggja til þriggja ára fangelsi. Fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga um tiltekna tegund nauðgunar, sem fyrir lagabreytingu var talað um sem misneytingu, er algeng, og ég vil leyfa mér að segja venjubundin, refsing tveggja ára fangelsi. Samkvæmt þessu viðmiði er löggjafinn að opna á það að við veitum heimild fyrir því að slíkur dómur sé afplánaður að fullu leyti með samfélagsþjónustu.

Ég vil ítreka það að ég ber fullt traust til Fangelsismálastofnunar og þykist vita að þar innan húss séu einhver viðmið um það hvaða brot falli hér undir. En hvað er það sem löggjafinn segir með tillögu sem þessari þegar engin viðmiðunarmörk fylgja? Hvaða skilaboð felast í þessu? Hver er refsipólitíkin? Hver eru skilaboðin til samfélagsins og til brotaþola? Hér er verið að leggja til tímabundna aðgerð. Ég átta mig á því að hún er tímabundin. En það er vegna þess að það er komin upp ákveðin staða sem verið er að bregðast við, ekki af því að menn hafi endilega þá hugmyndafræði að baki að þetta sé það sem eðlilegt þyki. Þá er spurningin hvort það sé þannig að löggjafinn ætli að opna á það að menn geti t.d. tekið út tveggja ára dóm fyrir nauðgun í samfélagsþjónustu og það sé engin umfjöllun um það hér af hálfu löggjafans hvort ástæða sé til að ramma það inn með einhverjum hætti að ofbeldisbrot eða kynferðisbrot séu undanskilin í þeim efnum.

Hér ætla ég að leyfa mér að nefna samspil dómstóla og Fangelsismálastofnunar, hvort það sé ekki eðlilegra, og svarið við því er vitaskuld já, að dómstólar fari með þetta vald því að með þetta háu refsihámarki er verið að setja mjög hátt hlutfall dæmdra refsinga inn í þennan ramma Fangelsismálastofnunar. Ef það er ekki ætlunin spyr ég hvers vegna það er ekki skýrlega undanþegið. Þetta er umhugsunarvert og hugsunarleysi, vil ég leyfa mér að segja, og atriði sem hefði þurft að rýna með einhverja heildarstefnu í huga til lengri tíma litið.

Eins og ég nefndi áðan hef ég áður komið upp hér til að nefna það að þetta er því miður gegnumgangandi stef þegar við rýnum afleiðingar af refsistefnu stjórnvalda. Við höfum verið að ræða það í þessum þingsal að dómar fyrir kynferðisbrot séu reglulega mildaðir vegna málsmeðferðartíma innan kerfisins. Það kemur gjarnan fram í dómum Landsréttar að ákæruvaldið hafi ekki getað gefið skýringar á töfum. Svarið er hins vegar ekki flóknara en svo að kerfið hefur ekki haft undan. Það er síðan auðvitað sjálfstætt viðfangsefni að ræða það hvort Landsréttur sé mögulega í einhverjum tilvikum að ganga lengra en gert var í þeirri tíð þegar Hæstiréttur hafði flest þessara mála til meðferðar á áfrýjunarstigi. En óháð því er staðan engu að síður sú að svona eru dómar að falla í dag. Afleiðingin er sú að dómar fyrir alvarleg brot eru vægari en annars hefði verið og þetta hefur verið að gerast þrátt fyrir að kynferðisbrotamálin hafi verið í forgangi innan kerfisins sjálfs og þrátt fyrir að margt mjög gott hafi gerst og mjög jákvæð vinna hafi verið unnin í kerfinu af hálfu kerfisins sjálfs til að eiga við þá stöðu. Það hefur gerst á undanförnum árum að kærum vegna kynferðisbrota til lögreglunnar fer fjölgandi. Það ætti auðvitað að vera áhyggjuefni og það er vitaskuld mikið áhyggjuefni að slík brot séu algeng í íslensku samfélagi. Hins vegar er það um leið staðreynd að það hefur í gegnum tíðina verið áhyggjuefni hversu fá kynferðisbrot hafa verið kærð til lögreglunnar og hækkandi tölur um kærur til lögreglu eru í því samhengi jákvæðar. Ég vil leyfa mér að segja að það sé líka spegill á það að kerfið njóti trausts, að brotaþolar skuli leita þangað. Sá árangur sem ég nefndi, að margt gott hafi gerst innan kerfisins á undanförnum árum, er árangur sem hefur náðst þrátt fyrir að málafjöldi sé að aukast. En það blasir auðvitað við að það er bæði erfitt og sárt fyrir þolendur og aðstandendur þeirra að þurfa að bíða mjög lengi eftir því að fá svör um afdrif máls, sem eru eðli málsins samkvæmt alltaf stórt áfall í lífi þeirra, og fá svo þau svör þegar dómur fellur, ef dómur fellur í máli þeirra, eða upplifa það að refsingin sé milduð vegna tafa.

Í því samhengi vil ég aftur nefna þá upplifun brotaþola að löggjafinn ætli núna, vegna þess að það eru biðlistar í íslenskum fangelsum, að fara þá leið að færa það viðmið sem við notum um samfélagsþjónustu þannig að það gildi um tveggja ára fangelsisdóma án þess að undanskilja og án þess að fjalla með neinum einasta hætti um það hvaða brot heyri þarna undir og hvaða brot heyri ekki þarna undir. Teldum við eðlilegt að sakborningur sem hefur hlotið tveggja ára dóm fyrir einhvers lags kynferðislega misnotkun á barni tæki afplánun út í samfélagsþjónustu? Í því samhengi um biðlistana nefni ég líka, og það er þáttur sem ekki má undanskilja, upplifun og rétt sakborninga því að óvissan er mönnum sem annars vegar sæta rannsókn og hins vegar bíða dóms líka þungbær.

Á þessari stöðu bera stjórnvöld ábyrgð og þeim ber að bregðast við í þágu hagsmuna samfélagsins alls. Afstaða mín er eindregin sú, sem ég hef nefnt hér, að samfélagsþjónusta sé í mínum huga og samkvæmt fræðunum mjög af hinu góða og hafi jákvæð áhrif á þá sem undir það úrræði gangast. Samfélagsþjónusta hefur jákvæð áhrif í þeim efnum að endurkomutíðni fanga fer lækkandi samkvæmt þeim rannsóknum sem við höfum við að styðjast. En þrátt fyrir að ég sé þeirrar skoðunar að dómarar ættu að hafa heimild til að dæma menn í þetta úrræði, þ.e. að við ættum að beita því í auknum mæli, þá finnst mér fráleitt og verulega umhugsunarvert að hér sé verið að fara með þetta mark í tvö ár án þess að löggjafinn ætli að hafa á því nokkra einustu skoðun hvaða dómar geti fallið þar undir.

Eins og ég segi er þessi tillaga skiljanleg í ljósi þess ófremdarástands sem hér ríkir en viðbrögðin við þeim vanda með tímabundnu úrræði, án heildarstefnu til lengri tíma litið til að taka á vandanum eins og hann raunverulega er, er varhugaverð leið. Þetta er vond refsipólitík og á skjön við það að það er lögregla sem rannsakar, það er ákæruvald sem ákærir, það eru dómstólar sem dæma og það er Fangelsismálastofnun sem útfærir dóminn sem dómstólarnir dæma. Það er ekki svo að Fangelsismálastofnun eða stofnun á eftir dómstólunum hafi allt um það að segja hvernig dómurinn lítur út.

Að lokum vil ég nefna að Viðreisn lagði til fyrir rúmum þremur árum síðan að ríkisstjórnin setti á fót starfshóp um mótun heildstæðrar stefnu í fangelsiskerfinu. Hún hefur verið samþykkt en mér sýnist sem það hafi ekki mikið verið gert við hana síðan hvað varðar aðgerðir. Ég kalla eftir því að verði þetta mál samþykkt núna án þess að það sé rammað inn með neinum hætti hvernig eigi að fylgja því eftir þá fari stjórnvöld í það, ráðherra dómsmála, að horfa til lengri tíma í þeim efnum og líta á þennan málaflokk heildstætt út frá almannahagsmunum, út frá hagsmunum þeirra sem fyrir brotunum verða, út frá hagsmunum þeirra sem sitja í fangelsum að afplána dóma til lengri tíma litið, að það sé einhver sýn, að það sé einhver hugmyndafræði hér að baki.

Þrátt fyrir að hér sé verið að teikna upp leið til að mæta ákveðnum vanda og það sé skiljanlegt og í sjálfu sér að mörgu leyti jákvætt þá er það mjög umhugsunarvert og varhugavert hversu langt er stigið í þeim efnum og hversu mikil uppgjöf felst í því að löggjafinn ætli ekki einu sinni að reyna að hafa skoðun á því hvað eigi að gera í þeim efnum.