151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[21:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta frumvarp um málefni þjóðkirkjunnar. Frumvarpið er framhald annarra mála sem verið hafa til meðferðar í þinginu og fela í sér aukinn aðskilnað ríkis og kirkju. Um frumvarpið hefur verið fjallað töluvert á vettvangi hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Allnokkur hópur gesta kom fyrir hana og allnokkrar umsagnir bárust eins og rakið er í nefndarálitinu.

Það voru nokkrir þættir sem meiri hlutinn taldi sérstaka ástæðu til að koma inn á í nefndaráliti sínu. Meðal annars er verið að fjalla um sjónarmið um gildissvið stjórnsýslulaga gagnvart kirkjunni og áréttað að samkvæmt frumvarpinu sé gert ráð fyrir því að sjálfstæði kirkjunnar verði aukið og að starfsmenn kirkjunnar séu ekki lengur starfsmenn ríkisins, og ýmis önnur atriði til að auka á aðskilnaðinn. Á grundvelli þeirra sjónarmiða er líka gert ráð fyrir því að stjórnsýslulög sem slík og ýmsar kvaðir sem þeim fylgja gildi ekki sjálfkrafa um kirkjuna og starfsmenn hennar með sama hætti og áður. Þess ber að geta hins vegar að meiri hluti nefndarinnar kemur inn á að það sé eðlilegt, þó að það sé ekki í landslögum, að kirkjan setji sér reglur af sama tagi. Vegna stöðu sinnar, stærðar og mikilvægis í samfélaginu, þá sé kirkjan í raun og veru hvött til að setja sér sínar reglur á vettvangi kirkjuráðs sem taka mið af þeim sjónarmiðum sem gilda um málsmeðferð og réttindi starfsmanna og annað þess háttar sem eðlilegt er.

Í starfi nefndarinnar komu fram athugasemdir frá Þjóðskrá Íslands varðandi nokkra tæknilega þætti sem raktir eru í nefndaráliti. Ég tel óþarft að fara nánar yfir það en vil bara geta þess að eftir umræður og umfjöllun í nefndinni var það niðurstaða meiri hlutans að það gæfi ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu að þessu leyti. Þarna væri um að ræða framkvæmdaratriði sem þyrfti að laga en þær heimildir sem þjóðskrá hefði væru fullnægjandi til að taka á þeim málum sem um er að ræða og áréttað að það verði hlutverk kirkjunnar sjálfrar að skilgreina mörk sókna. Síðan verði það auðvitað að ganga greitt fyrir sig að upplýsingum á þeim grundvelli verði vísað til þjóðskrár og annarra yfirvalda eftir því sem þörf er en sóknarmörk skipta auðvitað máli varðandi sóknargjöld.

Við gerum lítils háttar breytingartillögur í nefndaráliti okkar, gerum orðalagsbreytingu til að skýra sérstaklega einn þátt sem varðar réttindi starfsmanna sem ráðnir voru í skilningi starfsmannalaganna eða eldri laga á þessu sviði. Það komu fram sjónarmið í nefndarstarfinu um að breytingar á orðalagi ákvæða að þessu leyti gætu valdið misskilningi og gætu hugsanlega leitt til þess að einstakir starfsmenn sem hefðu verið ráðnir til starfa í skilningi eldri laga nytu ekki sömu réttarstöðu og áður hefur verið gert ráð fyrir. En það var vilji meiri hluta nefndarinnar að taka af skarið með það þannig að svo væri ekki. Við leggjum til að þar verði gerð lítils háttar breyting en hún er hins vegar til skýringar og auðvitað til að gæta þess að ekki leiki vafi á að réttinda þeirra starfsmanna sem þar eiga í hlut sé gætt.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fjalla nánar um þetta í ræðu minni en undir nefndarálitið sem hér liggur fyrir frá meiri hlutanum rita, auk þess sem hér stendur: Formaður nefndarinnar, Páll Magnússon, sem var jafnframt framsögumaður málsins meðan það var til umfjöllunar í nefndinni, og hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem gerði fyrirvara.