151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

708. mál
[22:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir samstarfið í þessu máli sem, eins og í svo mörgum öðrum á kjörtímabilinu, hefur verið afbragðsgott og sérstaklega núna á þessu þingi. Ég þakka líka hv. framsögumanni, Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir vinnu sína sem framsögumaður í málinu. Það er búið að koma inn á efnisatriðin í ræðunum á undan þannig að ég ætla ekki að endurtaka það sem hefur verið sagt. En mig langar til að vekja athygli á, í ljósi þess að margir umsagnaraðila höfðu áhyggjur af mögulegum kostnaði sem af frumvarpinu leiddi og þessari innleiðingu, innleiðingarákvæði málsins sem er fjallað um í nefndaráliti meiri hlutans, undir lok þess, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hafa tilskipanirnar ekki verið teknar upp í EES-samninginn en unnið er að undirbúningi ákvörðunar þar um á vettvangi EES/EFTA ríkja.“

Í þessu ljósi vil ég benda sérstaklega á og fagna því að hér sé haldið til haga því atriði að það þurfi að horfa til þess með hvaða hætti þessar gerðir verða teknar upp og útfærðar. Eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að fylgjast með framgangi gerðanna á þeim vettvangi og bregðast við ef þurfa þykir, svo sem með frestun gildistöku laganna, sem nú er 1. janúar 2023, til að tryggja að við upptöku gerðanna í EES-samninginn komi íþyngjandi kostnaðaráhrif ekki fram hjá íslenskum fyrirtækjum, sveitarfélögum og neytendum fyrr en fyrirkomulag framkvæmdar regluverksins liggur fyrir.“

Ég held að þetta sé skynsamleg nálgun hvað þetta varðar í því ljósi að gerðirnar hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn og ekki afgreiddar í sameiginlegu EES-nefndinni. Mig langaði bara við þessa umræðu að benda á þetta því að ég held að þetta eigi að svara að nokkru marki þeim áhyggjum að útfærslurnar verði meira íþyngjandi kostnaðarlega en það sem verður hugsanlega endanleg útfærsla á grundvelli EES- innleiðingarinnar.

En aftur vil ég þakka kærlega fyrir góða vinnu í málinu. Ég þakka hv. framsögumanni málsins, Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir hans vinnu og vona að okkur takist vel til með þetta mál.