151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[00:05]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eins hratt og nokkur kostur er með minni notkun jarðefnaeldsneytis í orkuframleiðslu og samgöngum og á sama tíma að auka kolefnisbindingu, þ.e. upptöku í viðtaka t.d. í jarðvegi og gróðri, með endurheimt vistkerfa, skógrækt og jafnvel með niðurdælingu koldíoxíðs.

Loftslagsráð hefur tekið kolefnishlutleysi til umfjöllunar en ráðið hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og markvissa ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum. Það er áhugavert, herra forseti, að í samantekt Loftslagsráðsins um kolefnishlutleysi, sem notuð verður til að byggja stefnumörkun sem er fram undan, kemur fram ítarleg umfjöllun um kolefnishlutleysið, markmiðið sjálft, og lykilhugtök. Einnig er þar að finna hvatningu til stjórnvalda, annars vegar um lögfestingu markmiðs Íslands um kolefnishlutleysi 2040 og hins vegar um að útfæra framtíðarsýn um kolefnishlutlaust Ísland fyrir væntanlega ráðstefnu aðildarríkja loftslagssamningsins COP26 sem haldin verður í Glasgow í nóvember 2021.

Í því samhengi er freistandi að minnast á þingsályktunartillögu þeirrar sem hér stendur um þverpólitíska þingmannanefnd sem á að fela forseta Alþingis að móta þá nefnd til að leggja fram tillögur um áherslur Íslands á ráðstefnunni í nóvember í Glasgow svo að fram fari breitt pólitískt samráð um áherslur Íslands í loftslagsmálum á þeirri miklu og mikilvægu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Það er nefnilega svo að það er ótrúlega mikilvægt að fulltrúar allra stjórnmálaflokka komi að áherslum Íslands í loftslagsmálum næstu árin en COP26-fundinum er ætlað að marka stefnuna næstu tíu árin til að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð.

En aftur að því lagafrumvarpi sem við ræðum hér, kolefnishlutleysislagafrumvarpinu, og að samantekt Loftslagsráðs um kolefnishlutleysi. Þar kemur fram að spurningin sem stjórnvöld og samfélagið allt stendur frammi fyrir sé ekki sú hvort kolefnishlutlaust Íslands sé möguleiki heldur hvers konar kolefnishlutleysi Íslands falli best að framtíðarsýn þjóðarinnar. Að mati ráðsins eru margar leiðir færar að því marki. Leiðin sem farin verður mun ráða úrslitum um lífsgæði og hagsæld þeirra sem landið byggja. Viðureignin við loftslagsvá kallar á samþættingu við hagstjórn og stefnumótun á flestum sviðum samfélagsins. Þróa þarf vísitölur til að mæla framfarir í málaflokknum, hámarka þarf verðmætasköpun fyrir hvert tonn af gróðurhúsalofttegundum sem losað er út í andrúmsloftið, nota þarf öll tiltæk verkfæri í verkfærakistunni, svo sem hagræn stjórntæki, skatta, gjöld, styrki og ívilnanir, skipulag á landnotkun og byggð, lög og reglugerðir, þátttöku í svæðasamstarfi um viðskipti með losunarheimildir, ETS-losunarheimildirnar, endurheimt vistkerfa, kolefnisjöfnun, viðskipti með kolefniseiningar á innlendum markaði, þróun hringrásarhagkerfisins, rannsóknir, nýsköpun, upplýsingu og fræðslu. Þetta kemur fram í samantekt Loftslagsráðs þar sem segir enn fremur að samvinna alls samfélagsins um lausn á loftslagsvandanum sé nauðsynleg og mikilvægt að allir finni til ábyrgðar og að sem flestir taki þátt. Í baráttunni við loftslagsvána hafa aðilar eins og ríki, borgir eða fyrirtæki sjálf sett sér markmið um kolefnishlutleysi og reynt að finna leiðir til að uppfylla þau markmið. Þessu öllu, herra forseti, gæti ég ekki verið meira sammála.

Herra forseti. Lögfesting á markmiði um kolefnishlutleysi árið 2040 er mjög stórt og mikilvægt skref í rétta átt í baráttunni gegn loftslagsvánni og ég styð það heils hugar, sem og þingflokkur Samfylkingarinnar. Útfærslan hefði þó þurft að vera metnaðarfyllri og það hefði verið gráupplagt að nýta ferðina hér og lögfesta áfangamarkmið fyrir árið 2030 og eftir því er kallað í umsögnum um þetta gríðarlega mikilvæga mál. Markmið Íslands í loftslagsmálum er a.m.k. 55% samdráttur í losun og var það markmið tilkynnt með formlegum hætti til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í febrúar síðastliðnum. Það markmið þarf líka að lögfesta. Vil ég benda á að lögfesting áfangamarkmiðs er varðar kolefnishlutleysi er gerð í Finnlandi þar sem miðað er við árið 2035 þegar kemur að lögbundnu áfangamarkmiði og í Noregi er miðað við lögbundið áfangamarkmið árið 2030. Ég hefði viljað gera slíkt hið sama hér.

Orkuveita Reykjavíkur bendir á þetta og tiltekur einmitt Noreg og Finnland sem dæmi um djarfari aðgerðir. Orkuveitan segir í umsögn sinni um málið að hún hefði gjarnan viljað sjá metnaðarfyllri markmið og að aðgerðirnar sem þar er vísað til séu hvorki nægilega vel tímasettar né kostnaðargreindar. Fleiri umsagnaraðilar tiltaka það líka og hvetja til metnaðarfyllri áforma og útfærslu og undir það tek ég, herra forseti. Samhliða þessu lagafrumvarpi þarf að tryggja fjármuni, enda er það svo að án fjármagns frá ríki, atvinnulífi, fjárfestum og fleirum er ólíklegt að tilsett markmið náist.

Ég verð aftur að nefna Orkuveitu Reykjavíkur sérstaklega sem segir í sinni umsögn, herra forseti, að í fjármálaáætlun til ársins 2026 séu engan veginn fullnægjandi tölur til þess að Ísland nái þessum markmiðum sínum hvað varðar loftslagsmálin og samdrátt í útblæstri. Undir það tek ég og minni í leiðinni á breytingartillögu þingflokks Samfylkingarinnar í fjárveitingum til loftslagsmála í fjármálaáætlun til ársins 2026 þar sem við lögðum til 5 milljarða á ári í loftslagsmál og bættum þar 4 milljörðum við þann 1 milljarð sem ríkisstjórnin leggur til í sinni fjármálaáætlun. Þar með er þingflokkur Samfylkingarinnar í forystu með fjármagnstillögu til loftslagsmála hér á Alþingi í fjármálaáætluninni. En við erum líka vel meðvituð um að mun meira fjármagn þarf í þennan málaflokk til þess að vel sé.

Herra forseti. Ég vil fagna þeirri breytingartillögu sem meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram með um málið þar sem orðalagið snýst um að þessu kolefnishlutleysismarkmiði skuli náð ekki árið 2040 heldur eigi síðar en 2040. Mér finnst það gott og það er mikilvægt að þetta komi fram. Síðan verð ég að segja að í breytingartillögu við frumvarpið, sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hefur lagt fram, er lagt til að styrkja framkvæmd loftslagsaðgerða með því að lögfesta þann samdrátt sem sjálfstætt lágmarksmarkmið Íslands, óháð því hvort stjórnvöld semja um lægri hlutdeild í sameiginlegum markmiðum með Noregi gagnvart Evrópusambandinu. Ég tel það góða breytingartillögu sem ég mun styðja.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, herra forseti. Ég vil ítreka stuðning við málið en ítreka sömuleiðis að vel hefði farið á því að nýta þessa mikilvægu ferð hér til að kynna til leiks metnaðarfyllri aðgerðir, útfærðari aðgerðir, og lögfesta áfangamarkmiðin sem önnur lönd hafa gert og við höfum fordæmi fyrir. Það er svo mikilvægt að gera það til þess að við höfum á næstu árum skýra varðaða leið um hvernig við ætlum að ná þessu markmiði sem er svo ótrúlega mikilvægt í þessu mesta og mikilvægasta máli sem bæði okkar kynslóðir og framtíðarkynslóðir þurfa að glíma við.