151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[00:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það sem þetta frumvarp gerir er að sjá til þess að lög um loftslagsmál endurspegli stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Það er sjálfsagt mál upp á það að aðgerðir næstu ára og áratuga miði að sama marki, miði að því að gera Ísland kolefnishlutlaust fyrir árið 2040. Það er hins vegar dálítið kúnstugt að við séum ekki að fá þetta frumvarp til okkar fyrr en nú. Að breyttu breytanda, með þeirri tillögu sem bættist við frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, er sú viðbót sem bætist við 1. gr. laganna samhljóða því sem stendur í nærri fjögurra ára gömlum samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar, um að ná kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Maður veltir fyrir sér hvort kannski hefði verið hægt að vinna markvissar á síðustu árum ef þetta hefði verið sett inn á fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar en ekki því síðasta.

Annar vandi sem kemur í ljós þegar svo langt líður frá því að markmiðið er upphaflega sett og þar til það er fest í lög er að markmið sem var nálægt því að vera metnaðarfullt 2017 er það bara alls ekki árið 2021. Kolefnishlutleysi árið 2040, borið saman við það að finnsk stjórnvöld stefna að hinu sama 2035 og norsk stjórnvöld árið 2030 — Ísland er bara alls ekki í fremstu röð, þó að við viljum telja okkur trú um það.

Það sem kemur í ljós við umfjöllun þessa máls er, eins og við höfum oft rekist á í loftslagsmálunum, hversu veik stjórnsýsla loftslagsmála er, hversu takmarkaðar upplýsingar eru til staðar á ýmsum sviðum. Það kemur til dæmis skýrt í ljós þegar umsagnaraðilar hvetja til þess að sett séu markmið um alla losun, þar með talið þá losun sem stafar af framræstu landi og þar með náttúrlega kolefnisbindingu í skógrækt og öðru slíku. Í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar segir, með leyfi forseta:

„Mat á losun og kolefnisbindingu í landnotkun og skógrækt er háð töluverðri óvissu og mun meiri en frá öðrum uppsprettum.“

Ég skil alveg það sem hv. framsögumaður málsins benti á, að vísindin á bak við þessa losun eru bara ekki á sama stað og vísindin á bak við ýmsa aðra þætti en í því ljósi er sérstaklega bagalegt að baráttan gegn þessari losun er önnur meginstoðin í loftslagsstefnu stjórnvalda. Það er mjög bagalegt að önnur meginstoðin sé svo óljós að nú á síðasta ári ríkisstjórnarinnar sé hún enn ekki nógu ljós til þess að hægt sé að festa hana í lög. Og svo að við lítum bara eina viku aftur um öxl þá er hægt að rifja upp að þegar fjármálaáætlun var samþykkt hér fyrir næstu fimm ár var þar 1 milljarður á ári í tíu ár eyrnamerktur loftslagsmálunum til viðbótar við það sem áður var, og helmingur þeirrar upphæðar var einmitt í þessa losun, aðgerðir til að koma í veg fyrir losun og auka kolefnisbindingu í landnotkun og skógrækt. Helmingur þeirra fjármuna í fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin stærði sig af að vera að bæta í loftslagsmálin fer í aðra meginstoð loftslagsstefnunnar sem ekki er nógu ljós til þess að hægt sé að festa hana í lög að þessu sinni.

En svo er hitt, sem bent var á af mörgum umsagnaraðilum, að bæta þyrfti í lögin við þetta tilefni og það er áfangamarkmiðið. Árið 2040 er dálítið langt inn í framtíðina. Ef við erum að tala um línulegan samdrátt yfir 20 ára tímabil þá hittist svo vel á að hálfa leiðina til 2040 er árið 2030, sem er einmitt viðmiðunarár Parísarsáttmálans, þar sem Ísland á töluleg markmið í stefnu stjórnvalda og væri hægt að lögfesta þau markmið við þetta tækifæri. Þau markmið eru tekin frá Evrópusambandinu miðað við 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun ársins 1990 og eru skref í rétta átt. Þessa tölu ákvað Evrópusambandið eftir að hafa tekið við tilmælum frá Evrópuþinginu um að ná 60% samdrætti þegar vísindin kalla eftir a.m.k. 65% samdrætti. Þetta var því prútt á prútt ofan á meginlandinu en er þó talsverð aukning frá því sem áður var hér á landi og til þess, alveg eins og með lögfestingu á kolefnishlutleysi árið 2040, að aðgerðir miði í sömu átt væri ekki úr vegi að lögfesta þetta 55% markmið fyrir árið 2030. Þá væri líka skýrara hvert væri stefnt árið 2030 vegna þess að það er bara alls ekki nógu skýrt. Hér stendur t.d. í nefndaráliti meiri hlutans:

„Markmið Íslands í loftslagsmálum er að minnsta kosti 55% samdráttur í losun og var það markmið tilkynnt formlega til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í febrúar á þessu ári.“

Þetta er rétt svo langt sem það nær vegna þess að þarna vantar fótnótuna sem er sú að markmiðið sem var tilkynnt til loftslagssamningsins er 55% samdráttur Evrópusambandsins og Ísland ætlar að semja um einhverja hlutdeild í því sem verður lægri ef eitthvað er að marka hvernig fór með hlutdeildina í síðasta markmiði Evrópusambandsins.

Þessu er ólíkt farið í loftslagsmálum í Noregi, sem tengist Evrópusambandinu með sama hætti og Ísland, þar sem stjórnvöld tilkynntu fyrir ári 55% markmið sem sjálfstætt landsmarkmið óháð því hvað kæmi út úr viðræðum við Evrópusambandið, sem er kannski líka eðlilegra. Það er alveg eðlilegt að fólk álykti sem svo að þegar talað er um 55% markmið Íslands sé það sjálfstætt markmið Íslands en í raun ekki markmið Evrópusambandsins sem Ísland fær einhvern afslátt af. En nú bíða íslensk stjórnvöld þess að fá niðurstöðu í samningum við Evrópusambandið um hlutdeild í 55% markmiði sambandsins og það er ekki nógu gott.

Herra forseti. Ég hef því lagt fram breytingartillögu um að bæta inn í frumvarpið því markmiði að Ísland nái a.m.k. 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun ársins 1990, alveg óháð Evrópusambandinu, óháð öllu; að sjálfstætt landsmarkmið Íslands verði 55%, eins og sagt er á öllum tyllidögum þegar ríkisstjórnin stærir sig af metnaði í loftslagsmálum. Með þessu verður framsetningin skýr. Með þessu dregur úr upplýsingaóreiðunni sem ríkir í loftslagsmálum á Íslandi í dag.

Ég tek þó fram, herra forseti, að þetta 55% markmið er tala sem var valin eingöngu vegna þess að það er sú tala sem stjórnvöld tala um. Ef ég væri sjálfur að velja markmið byggt á því sem vísindin kalla eftir væri þessi tala eflaust hærri, 65% til 70%, myndi ég ætla. En 55% samdráttur er það sem talað er um í ræðum ráðherra, í nefndaráliti meiri hluta og ætti einfaldlega að vera sjálfstætt markmið, fest í lög til að tryggja styrkari framkvæmd loftslagsaðgerða næsta áratuginn.

Eins og viðbótarbreytingartillaga umhverfis- og samgöngunefndar endurspeglar þurfa þessi lög að taka breytingum reglulega eftir því sem þekkingu vindur fram og metnaður eykst og staðan breytist. Prósentur og ártöl þurfa að breytast en fram á við þarf líka fleiri markmið. Það sem kannski skiptir mestu máli er að við séum með samdrátt í einhverju samræmi við það sem vísindin kalla eftir, sem er ekki raunin í núverandi áætlunum stjórnvalda og við þurfum að færa markmið um kolefnishlutleysi nær okkur í tíma með því að grípa til róttækari aðgerða. Svo þarf líka að fara að setja markmið um hvað gerist eftir árið sem Ísland nær kolefnishlutleysi. Þá þurfum við að fara að setja okkur markmið um neikvæða nettólosun þegar landið er farið að binda meira af koltvísýringi en það losar. Svo þurfum við líka eitthvert markmið eða einhverja mælikvarða á neysludrifna losun, þ.e. þá losun sem á sér stað vegna Íslands en utan landamæra Íslands þannig að við getum ekki flutt úr landi mengandi framleiðslu eða hvað það er og bara sagt að sú losun sé vandamál þess ríkis þar sem hún á sér stað, ríkis sem er að framleiða vöru fyrir íslenska neytendur.

Fram á við þarf líka sjálfstæð markmið varðandi ákveðna geira. Við þurfum innlend markmið fyrir stóriðju og fyrir flug og fyrir aðra ETS-geira, markmið sem auka metnaðinn enn frá því sem samevrópsku kerfin setja þessum greinum, til þess að við getum verið ríki í forystu eins og Ísland á að geta verið í loftslagsmálum en er svo fjarri því að vera.

Virðulegur forseti. Eins og ég hóf mál mitt á að segja þá er þetta frumvarp ágætisskref, hefði verið töluvert stærra ef það hefði litið dagsins ljós í árdaga þessarar ríkisstjórnar en ekki þegar hún er við það að fara frá völdum. Það er í raun nú þegar úrelt vegna þess að við hljótum að vilja talsvert aukinn metnað frá því sem um samdist á milli stjórnarflokkanna fyrir fjórum árum og það nær engan veginn yfir allt það svið sem það þyrfti að ná yfir þó að það myndi reyndar stórbatna ef þingheimur myndi fylkja sér á bak við þá breytingartillögu sem ég hef lagt fram við málið.