151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[01:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það er tvennt varðandi þetta og annað snýr að því þegar frumvarpið kom fram. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var í samráðshópnum sem talaði við starfshópinn sem vann á endanum frumvarpið. Upprunalega átti að reyna að ná samstöðu um frumvarpið sem náðist kannski ekki endanlega áður en það var lagt fram. Það var alveg ljóst í 1. umr., í ræðu flutningsmanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að menn myndu þá bara leggja breytingartillögur sínar fram og það var okkar skilyrði. Menn leggja bara breytingartillögur sínar fram þar sem þeir eru, það er ekki hægt að mynda samstöðu um neitt annað. Við myndum samstöðu um það sem við getum sameinast um og greiðum atkvæði um það, en menn leggja fram breytingartillögur um það sem þeim finnst rétt að gera í málinu. Þar var hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, í samstarfi við þingflokk Pírata, alveg skýr í þeirri afstöðu sinni að jafnt vægi atkvæða væri eitt af þeim atriðum. Sú breytingartillaga liggur þarna frammi. Svo lagði hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fram frumvarp þessa efnis sem fékk meðferð í nefndinni og við fengum gesti þar sem farið var yfir þessi mál þannig að umræðan átti sér svolítið stað þar. Það var alveg ljóst að þetta var ekki eitthvað sem mjög margir flokkar á þingi myndu vilja þó að Píratar, Viðreisn og Samfylking gætu sameinast um það. Það er þar sem málið endaði í vinnslu nefndarinnar. Upp úr þeim sjónarmiðum sem komu fram í frumvarpi hv. þingmanns, þeim sjónarmiðum sem komu fram í breytingartillögu Björns Levís Gunnarssonar og þeim sjónarmiðum sem Ólafur Þ. Harðarson hefur haldið á lofti, og komu fram fyrir nefndinni, unnu þingmenn þessara flokka, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar, breytingartillögu um málið sem liggur fyrir. Að sjálfsögðu mun ég greiða henni mitt atkvæði.