151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[01:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir kynninguna á nefndarálitinu. Ég er að velta einu atriði fyrir mér en það eru ákvæði 74. og 90. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um aðstoð við kjósanda. Það er það sem ég ætlaði að spyrja um. Í gildandi lögum eru nokkur öryggisatriði til að tryggja öryggi kosninga, t.d. það að þegar kjósandi mætir og vill aðstoð skýri hann kjörstjórninni, eða kjörstjóra, eftir því hvort þetta er utankjörfundar eða ekki, frá því að hann vilji aðstoð og hann á að óska eftir aðstoðarmanni í einrúmi með kjörstjóranum. Aðstoðarmaðurinn má ekki vera inni í kjörstofunni meðan hann leggur þessa beiðni fram. Þetta er til að koma í veg fyrir áhrif. Þetta er mjög mikilvægt. Það er búið að fella þetta út. Það er líka búið að fella út úrræði fyrir fatlaða sem vilja aðstoð en uppfylla ekki skilyrði núverandi laga, sem mikið hefur fundið að, þ.e. að það sé bara sjónleysi eða að höndin sé ónothæf, og það er þetta úrræði um réttargæslumann fatlaðra sem er í lögunum núna. Þeir geta fengið vottorð frá honum, mætt á staðinn og fengið aðstoð. Hvernig hefur þetta úrræði verið notað? Það er mín fyrsta spurning. Hefur eitthvað mistekist? Eru menn óánægðir með það? Hefur það verið kannað? Þá þarf ekki að hugsa um þetta með sjónleysi eða að höndin sé ónothæf og ekki um einrúmið inni í kjörstjórninni, (Forseti hringir.) heldur á hann þennan möguleika. Ég spyr um réttargæslumann fatlaðra og ég spyr um þessi öryggisatriði. Af hverju eru þau felld út?