151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[01:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Forseti. Eins og við höfum báðir farið yfir í dag og í gær þá er 1. mgr. skýr. Þú mátt aðeins víkja frá reglum um kosningar „ef“ — það eru skilyrði þarna og við höfum farið yfir þetta saman. Það eru skilyrði: Ef þú ert ófær um að kjósa öðruvísi máttu víkja frá reglunum. Það stendur í textanum og við fórum yfir þetta tveir saman. Það eru skilyrði, þau eru bara orðin víðtækari og ná yfir fleiri tegundir af fötlun. Ef þú ert t.d. daufdumbur, hver á þá að geta aðstoðað þig á kjörstað? Þetta er ákvæði um það að ekki megi hver sem er koma og gera hvað sem er og ekkert er gert. Jú, þú verður að hafa ástæðu fyrir því og ástæðan verður að vera sú að annars getir þú ekki kosið. (KGH: Hvar kemur þetta fram?) Þetta er í texta frumvarpsins, fyrsta lína í 1. mgr. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Við fórum yfir þetta saman, hv. þingmaður. (KGH: Kjósandi á rétt til aðstoðar. Það stendur hérna.) Já, kjósandi á rétt til aðstoðar, lestu áfram. (KGH: Við getum lesið þetta í hljóði, við þurfum ekki að vera að raska öllum salnum.) Við fórum yfir þetta saman og hver sem er getur lesið þetta. Þú bara flettir þessu strax upp í frumvarpinu. Þú mátt aðeins víkja frá reglunum ef þú getur ekki kosið annars. Það þarf síðan að skrá þetta niður. Þegar þetta kom fram í nefndinni, og það er sjónarmið sem var gott að heyra, sagði ég: Ókei, setjum þennan varnagla. Við getum þá fylgst með því að þetta verði skráð niður og Alþingi verði upplýst þannig að við gætum verið að fylgjast með ástæðunum og brugðist við ef okkur finnst eitthvað óeðlilegt. En það að fólk fái sinn aðstoðarmann sem það treystir betur, að fatlað fólk fái það, og geti mætt á kjörstað, ef það getur sýnt fram á að annars geti það ekki kosið, þýðir að það þarf ekki að spyrja (Forseti hringir.) einhvern úr kjörstjórninni. Eða að sýslumenn (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) mæta á vistheimili og geta safnað atkvæðum saman þar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Í dag (Forseti hringir.) er hægt að misnota þetta. (Gripið fram í.) Jú. Þetta er í lögunum og verður áfram inni. Það er hægt að misnota (Gripið fram í.) þetta í dag og þetta mun jafnvel hafa þau áhrif (Forseti hringir.) að misnotkunin minnkar, hv. þingmaður, og það höfum við farið yfir.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk og gæta að því að skiptast ekki á skoðunum sín á milli í ræðum sínum.)