151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[20:54]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Miðhálendisþjóðgarður hefur verið eitt mesta baráttumál umhverfis- og náttúruverndarsinna innan þings og utan um ár og áratugabil. Að vísa málinu til ríkisstjórnar eru ekki skýr skilaboð Alþingis um að vinna málið betur heldur skýr skilaboð til þjóðarinnar um að þessi ríkisstjórn ráði ekki við verkið vegna innbyrðis deilna og ágreinings. Það er öllum ljóst. Það er öllum ljóst að allt tal um eitthvað annað er fyrirsláttur. Það er það sem þetta er. Þetta er mál sem sett var í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar og eitt helsta baráttumál þess flokks sem leiðir ríkisstjórn. Það er uppgjöf eftir alla þá vinnu að þetta séu örlög miðhálendisþjóðgarðs. Ég syrgi það og það er dapurlegt, herra forseti.