151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

697. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Málinu var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni 2. umr. Nefndin fjallaði um málið með tilliti til ábendinga þess efnis að í breytingartillögu meiri hlutans við 2. gr. frumvarpsins hefði mögulega verið gengið lengra en tilefni stóð til og hvort forsendur kynnu að vera fyrir því að láta b-lið 2. gr. frumvarpsins ná til fleiri tilvika en þegar einstaklingur utan atvinnurekstrar skiptir á hlutum í sprotafyrirtækjum.

Nefndin hefur skoðað málið í samráði við ráðuneytið og telur meiri hlutinn ekki forsendur fyrir því að víkja frá því orðalagi sem lagt var til í breytingartillögum meiri hlutans við 2. umr., án þess að áhrif slíkra breytinga verði metin til fulls. Meiri hlutinn telur þó að víðtækari heimild til frestunar á skattlagningu hagnaðar sem myndast við skipti á hlutum eða hlutabréfum en kveðið er á um í frumvarpinu geti í mörgum tilvikum verið málefnaleg og hvetur ráðuneytið til þess að taka málið til frekari skoðunar.

Við 2. umr. um málið lagði Andrés Ingi Jónsson fram breytingartillögu þess efnis að ákvæði 26. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, um gjaldtöku vegna leyfis til nafnbreytinga samkvæmt lögum um mannanöfn og leyfis til breytinga á skráningu kyns samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði, félli brott. Tillagan var dregin til baka og óskað eftir því að nefndin tæki hana til skoðunar fyrir 3. umr. Meiri hlutinn hefur yfirfarið tillöguna og gerir hana að sinni, þó með þeirri breytingu að hún öðlast gildi á sama tíma og önnur ákvæði frumvarpsins.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Við 12. gr. bætist nýr stafliður er verði f-liður, svohljóðandi: 26. tölul. fellur brott.“

Undir þetta álit rita auk mín, Brynjars Níelssonar, Óli Björn Kárason formaður, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy og Þórarinn Ingi Pétursson.