151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

launasjóður íslensks afreksíþróttafólks.

116. mál
[22:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir að kynna nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Það gleður mig að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að fallast á þingsályktunartillöguna sem kveður á um að fela mennta- og menningarmálaráðherra að leggja fram einhvers konar tillögu að launasjóði fyrir afreksíþróttafólk af því að þetta var jú þingsályktunartillaga sem ég mælti fyrir fyrr á þessu þingi.

Tilgangur með svona sjóði er að auka fjárhagslegt öryggi afreksíþróttafólks og auka möguleika þess til að helga sig íþróttaiðkun sinni í aðdraganda stórmóta. Nú sitja margir og horfa á EM í knattspyrnu. Þar eru fjölbreyttir hópar, sumir sem hafa atvinnu af því að leika knattspyrnu og fá borgað fyrir það, aðrir sem eru t.d. valdir í landslið og fá ekki greitt fyrir að leika knattspyrnu dagsdaglega. Öll mæta þau svo á stórmót, ýmist í hópíþróttum eða öðru, og hafa þá ótrúlega ólíkar aðstæður, þ.e. þeir sem eru atvinnumenn og fá borgað fyrir það og svo þeir sem eru afreksíþróttamenn og fá ekki greitt fyrir það en mæta engu að síður fyrir hönd okkar þjóðar eða annarra þjóða og öll viljum við að þeim gangi vel.

Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar sem fjallaði um þetta voru mjög hlynntir málinu. Afreksíþróttafólk hefur verið að kalla eftir viðlíka stuðningi og þekkist í nágrannalöndum okkar þar sem afreksíþróttafólk fær stuðning. Við getum horft á fyrirmyndir hér innan lands, t.d. fyrirmynd í launasjóði stórmeistara í skák eða fyrirmynd í launasjóði listamanna sem hafa heldur betur stutt við bakið á þeim hópum. Þetta er okkar stolt, bæði innan lands og utan lands, miklar fyrirmyndir, og þess vegna eigum við að styðja við bakið á þeim þegar þau þurfa á að halda.

Afreksíþróttafólk á þess kost að sækja um styrki frá afrekssjóði ÍSÍ sem þó er þess eðlis að hann styður aðallega við sérsamböndin. Styrkirnir duga stundum langleiðina upp í þann beina kostnað sem hlýst af ferðum, mögulega fargjöld eða gistikostnað, en annað ekki. Það er þetta ójafnræði sem er milli okkar afreksíþróttafólks og svo afreksíþróttafólks erlendis — þetta er mikið ójafnræði, sérstaklega þegar kemur að keppnum á stórmótum erlendis.

Flutningsmaður nefndarálits fór yfir þær aðstæður, þau réttindi og það öryggi sem myndi skapast við að setja á laggirnar launasjóð íslensks afreksíþróttafólks. Ég bara fagna því að þetta mál sé að klárast hér í dag og fara til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til afgreiðslu.