151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

hagsmunafulltrúar aldraðra.

109. mál
[23:09]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um hagsmunafulltrúa aldraðra. Þetta er þingmál Flokks fólksins. Frummælandi var Inga Sæland og á bak við þetta stendur Flokkur fólksins allur og óskiptur. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Berglindi Eyjólfsdóttur, frá öldungaráði Reykjavíkur, Þórunni Sveinbjörnsdóttur, frá Landssambandi eldri borgara, Maríu Fjólu Harðardóttur og Eybjörgu Hauksdóttur frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Nefndinni barst umsögn frá öldungaráði Reykjavíkur. Á fyrri þingum bárust nefndinni umsagnir frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, öldungaráði Reykjavíkur, Félagi eldri borgara, Félagi eldri borgara í Reykjavík og Landssambandi eldri borgara og Reykjavíkurborg.

Tillagan felur í sér stofnun sérstaks embættis sem sjái um hagsmunavörslu í þágu eldra fólks. Nefndin bendir á að eldra fólk þarf nánast daglega að eiga í samskiptum við hið opinbera, hvort sem það er í tengslum við fjárhagsleg réttindi sín, opinbera þjónustu eða til að standa vörð um eigin réttindi.

Flestir umsagnaraðilar tóku undir mikilvægi þess að stofna embætti sem hefði það hlutverk að standa vörð um hagsmuni eldri borgara. Nefndinni bárust athugasemdir um orðalag í greinargerð um að hagsmunafulltrúi skuli hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum allra eldri borgara. Samkvæmt umsagnaraðilum þarf að skýra nánar hvað felist í slíku frumkvæðiseftirliti. Nefndin áréttar að verði tillagan samþykkt þá verði það hlutverk ráðherra að semja frumvarp sem kveði á um hlutverk hagsmunafulltrúa. Við þá vinnu verði að sjálfsögðu gætt að því að frumvarpið feli nýju embætti ekki heimildir sem fari í bága við réttarreglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Nefndin leggur áherslu á að embættinu er falið að aðstoða fólk sem ekki getur lengur séð um sig sjálft og getur ekki eða vill ekki leita aðstoðar ættingja eða vinafólks og því er mikilvægt að hagsmunafulltrúi sé tiltækur til aðstoðar.

Nefndin vill einnig brýna fyrir ráðherra að frumvarpið verði unnið í fullu samráði við helstu hagsmunahópa eldra fólks.

Nefndin telur þörf á að breyta hugtakanotkun í heiti tillögu þessarar sem og í tillögugreininni sjálfri. Í stað þess að tala um „aldraða“ leggur nefndin til að orðin „eldra fólk“ komi í staðinn. Þannig verði talað um „hagsmunafulltrúa eldra fólks“. Þá leggur nefndin til að í stað þess að ráðherra verði falið að leggja fram frumvarp fyrir árslok 2021 verði honum falið að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem vinni frumvarp um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn taki til skoðunar hluti sem varða málefnið, m.a. hvar slíku embætti verði best fyrir komið, og skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022. Leggur nefndin til breytingu á tillögugreininni þess efnis.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„1. Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn meti m.a. hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skuli vera. Starfshópurinn skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022.

2. Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um hagsmunafulltrúa eldra fólks.“

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara, sem hann gerir grein fyrir í ræðu. Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Undir álitið rita Guðmundur Ingi Kristinsson, sem hér stendur, Anna Kolbrún Árnadóttir, Helga Vala Helgadóttir, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen og Vilhjálmur Árnason.