151. löggjafarþing — 114. fundur,  13. júní 2021.

launasjóður íslensks afreksíþróttafólks.

116. mál
[00:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég gleðst yfir jákvæðninni hér og samstöðunni í salnum í kvöld yfir þessari þingsályktunartillögu þar sem ég lagði til að menntamálaráðherra yrði falið að setja á fót launasjóð afreksíþróttafólks. Við hömpum íþróttafólki á stórmótum erlendis en það hefur ekki getað sótt neinn stuðning frá okkur nema bara frá einhverjum fyrirtækjum úti í bæ sem hefur sett það í ólíka og ójafna stöðu við afreksíþróttafólk frá nágrannalöndum okkar. Ég vona að þetta verði að veruleika hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þegar hún hefur lokið vinnu við þetta og annað mál sem við greiðum atkvæði um hér á eftir.