151. löggjafarþing — 114. fundur,  13. júní 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[00:38]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mér reiknast lauslega til að þetta sé mín þúsundasta ræða í þessum ræðustól og líklega mín síðasta, alla vega í bili. Mig langar að nota tilefnið til að segja að það er algjört lykilatriði að íslenskir stjórnmálamenn fari að skilja það að örlög heimsins eru örlög Íslands. Heimurinn stefnir hraðbyri að því að verða óbyggileg auðn ef við grípum ekki til alvarlegra aðgerða til að sporna við því. Það hefur farið ótrúlega í taugarnar á mér undanfarin ár að sjá stjórnmálamenn hreykja sér af minni háttar skrefum í áttina að einhverjum aðgerðum sem yfirleitt hafa engan mælanlegan árangur eða nokkuð á bak við sig. Við þurfum að taka þetta alvarlega og að vísa máli eins og þessu frá er einmitt gott dæmi um að fólk sé ekki að taka málið alvarlega.