151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

leiðrétting búsetuskerðinga öryrkja.

[13:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Svo ég komi fyrst inn á það sem hv. þingmaður nefndi hér varðandi búsetuskerðingar sem dæmdar voru ólögmætar, þá get ég því miður ekki svarað nákvæmlega hv. þingmanni hvenær þeim leiðréttingum mun ljúka, sem er auðvitað á hendi Tryggingastofnunar og hæstv. félags- og barnamálaráðherra. (HallM: … svara spurningunni?) Ég er hér að svara spurningunni. Hv. þingmaður verður að halda ró sinni á meðan ég svara henni. Hæstv. félagsmálaráðherra fer með þennan málaflokk og ég vænti þess að að því sé unnið. Þetta snýst ekki um viljaleysi stjórnvalda til að leiðrétta þessar búsetuskerðingar heldur að þær verði gerðar upp með réttmætum hætti samkvæmt því sem félagsmálaráðherra hefur farið yfir ítrekað hér í þingsal.

Hv. þingmaður spyr líka og gefur þar í skyn í forsendu spurningarinnar að ekkert hafi verið gert í málefnum öryrkja á kjörtímabilinu. Það er auðvitað rangt hjá hv. þingmanni. Hér hefur verið dregið úr skerðingum vegna atvinnutekna, sem hefur verið eitt stærsta hagsmunamál og baráttumál Öryrkjabandalagsins. Það var gert núna en við þeim hafði ekki verið hreyft síðan þær voru settar á fyrir 10–12 árum. Úr þeim var dregið. Á sama tíma var sömuleiðis ráðist í þá aðgerð að draga úr skerðingum milli bótaflokka. Markmið þeirrar leiðréttingar og breytingar var að auka tekjur tekjulægsta hópsins innan hóps öryrkja. Enn þá bíður að ljúka við heildarendurskoðun á kerfinu sem ekki var gert 2016, illu heilli að mínu viti, enda má sjá þegar sagan er skoðuð og tekjur ólíkra hópa skoðaðar, til að mynda aldraðra og öryrkja, að þar standa öryrkjar höllum fæti til að mynda gagnvart öldruðum. Þannig er nú staða málsins. Það er mjög brýnt að ljúka þessari heildarendurskoðun. Ég vonast til þess að það verði gert snemma á næsta kjörtímabili.

En hér er ekki hægt að tala eins og ekki hafi verið komið til móts við mikilvæg baráttumál öryrkja sem snúast einmitt um að draga úr skerðingum og gera þetta kerfi gagnsærra og réttlátara.