151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

leiðrétting búsetuskerðinga öryrkja.

[13:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að sleppa því að gera að umtalsefni mælskubrögð hv. þingmanns þó að hún kjósi að koma hér upp með einhverjar slíkar fabúleringar sem eru auðvitað ekkert annað en fabúleringar. Staðreyndin er sú, eins og ég fór yfir áðan, að komið hefur verið til móts við tekjulægstu hópana í þessu samfélagi allt þetta kjörtímabil með því að lækka skatta á tekjulægstu hópana, með því að hækka barnabætur á tekjulægstu hópana, með því að ráðast í sértækar úrbætur bæði hvað varðar aldraða og öryrkja innan almannatryggingakerfisins. Það eru staðreyndir sem hv. þingmaður fær ekki hrakið og leggst því í mælskubrögð.

Hvað varðar fólk á flótta hefur málsmeðferðartími hér á landi verið styttur aftur á þessu kjörtímabili. Tekið hefur verið á móti fleirum á þessu kjörtímabili en kjörtímabilinu á undan. Hér er tekið á móti hlutfallslega fleirum en annars staðar á Norðurlöndum. Það er það sem hefur í raun og veru gerst, hæstv. forseti, óháð öllum mælskubrögðum.