151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

innleiðing þjónustutengds fjármögnunarkerfis í heilbrigðisþjónustu.

[13:36]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Til skýringar vitna ég til inngangsorða hæstv. ráðherra í skýrslu McKinseys frá október sl., en tekið er fram í skýrslunni að kostnaður sem fellur undir sérstök fyrirmæli verði til hjá deildum með miklar sveiflur í legutíma eða kostnaði innan greiningarflokka. Þar er t.d. átt við geðlækningar, endurhæfingar eða öldrunarlækningar. Þetta eru þær deildir sem við viljum alla jafnan hafa vel fjármagnaðar. Mig langar því að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig ætlunin sé að koma til móts við þennan ófyrirsjáanleika sem við vitum að er fyrir hendi og fer vaxandi, þegar því er haldið fram í þessari skýrslu að slík fjármögnun muni ekki felast innan kerfisins, þessa DRG-kerfis, vegna þess að sveiflurnar séu það miklar.