152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[17:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er ekki sá þingmaður sem hér kom í andsvar sem hefur verið að kalla eftir lögfullri sönnun, það hafa aðrir þingmenn gert svo að því sé haldið til haga. Það var kallað eftir skýrri sönnun á tilteknum atvikum sem áttu að hafa gerst, það hefur átt sér stað hér í dag. Að líkur séu á að tiltekinn galli, segir hv. þingmaður. Ég tel að líkur séu á að tiltekinn galli, eða tilteknir annmarkar á framkvæmd, hafi leitt til breytinga á niðurstöðum kosninga. Við sjáum að við erum með verulega annmarka og ekki bara einn, það eru fjölmargir annmarkar á framkvæmd kosninga og sá alvarlegasti varðar vörslu kjörgagna. Við vitum það eitt að það var fólk þarna. Við sáum það í öryggismyndavélum að það var fólk sem gekk um salinn á þessu tímabili. Við vitum það. Ef við myndum vita að ekkert fólk hefði farið inn í salinn á þessu tímabili þá værum við örugg með það. Við vitum að það var fólk sem gekk um, við vitum að tölurnar breyttust og þá verðum við að gera þá kröfu að einhvers konar staðfesting fáist á því að ekki hafi verið átt við kjörgögnin af því að það eru líkur á að þeir annmarkar sem þarna voru uppi hafi haft áhrif á niðurstöðuna. Ég er algerlega þeirrar skoðunar.