152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[17:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Við erum ekki hér að spá og spekúlera, við getum alveg gert það og það hefur líklega verið gert í undirbúningskjörbréfanefnd og síðar í kjörbréfanefnd. Þá var verið að spá og spekúlera. Hér erum við ekki í því, hér erum við með niðurstöður rannsóknar undirbúningsnefndar, hvers verkefni var að skoða og fá staðfest að allt hefði verið í lagi, að allt hefði verið með þeim hætti sem ætlast er til. Það er tímabil varðandi vörslu kjörgagna sem landskjörstjórn hefur staðfest að er óútskýrt, þ.e. við getum ekki með fullnægjandi hætti sagt hvað átti sér stað inni í talningarsalnum með óvörðum kjörgögnum án þess að þar væri vitna viðurvist. Það er alger ómöguleiki um slíkt. Hvernig er þá hægt að halda því fram að þetta hafi allt verið í lagi? Það er mér eiginlega alveg óskiljanlegt. (Gripið fram í.) — Nei, að þetta hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Það er mér óskiljanlegt hvernig hægt er að halda því fram. Við vitum að tölurnar breyttust og fólkið sem var inn eða út af þingi tengist því. Það breyttist hverjir væru þingmenn og það breyttist hvernig tölurnar lágu. Ef maður ætlar að vera algerlega sannfærður um að allt þetta hringl og þessir annmarkar hafi ekki haft áhrif verður maður að hafa fyrir því fullkomna vissu. (Forseti hringir.) Það er uppi slíkur vafi um að svo sé, að annmarkarnir hafi ekki haft áhrif, að ekki er hægt annað en að ógilda kosningarnar í þessu kjördæmi.