152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[21:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við eigum að gera kröfur um öruggar kosningar, að það sé hægt að sannreyna niðurstöður og það þurfi ekki að treysta einhverjum einum hvað það varðar að kosningarnar séu réttar. Það er mikilvægt í lýðræðissamfélagi að kjósendur geti sannreynt að atkvæði þeirra hafi borist og verið talin rétt. Ég vitna aftur í Gunnar G. Schram, úr Stjórnskipunarrétti, varðandi þessa annmarka á framkvæmd kosninga, með leyfi forseta:

„Sé það ljóst að kosningaágallar hafa getað ráðið úrslitum um kosningar skiptir almennt engu máli hverjum er um að kenna eða hvort nokkur á sök á misfellunum. Kosningu ber allt að einu að ógilda.“

Við erum ekki að leita að sökudólg. Við erum ekki að leita að orsakasamhengi, við erum að leita að því hvort það séu gallar og hvort það séu breytingar á niðurstöðum, eða í tilefni t.d. kosningaleyndar, ef það er brot á kosningaleynd er kosningin ógild. Að mínu mati gildir það sama um öryggi kjörgagna.