152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[21:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Óboðleg varsla kjörgagna, ófullnægjandi samskipti við umboðsmann og ýmislegt annað teiknar upp atburðarás sem einkenndist af óvandvirkni og kæruleysi, almennu skeytingarleysi gagnvart þeirri nákvæmni sem krafist er í kosningalögum. Hvert og eitt tilvik leiðir ekki endilega til ógildingar kosninga en kerfisbundið sleifarlag getur gert það. Þótt hlutföll milli flokka hafi ekki breyst milli talninga breyttist niðurstaða þeirra sem hlutu kjör auk þess sem hlutföll flokka í einstaka kjördæmum riðluðust. Niðurstaðan er sú að ekki var mögulegt að sannreyna mögulegan galla við fyrri talningu í svokallaðri seinni talningu vegna þess að gögnin voru orðin svo menguð af þessari vanrækslu. Það væri svipað og að skvetta úr vatnsfötu í baðkar og freista þess að veiða aftur upp vatnið og sannreyna hversu miklu hafi verið skvett ofan í karið. Um þetta er þingflokkur Samfylkingarinnar einhuga og munum við greiða atkvæði með uppkosningu.