152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[21:11]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem farið hefur verið oft með hér í dag, að það verður að vera traust á lýðræðinu og að lýðræðislegar kosningar þurfi að geta farið fram. Það geta komið upp annmarkar á kosningunum og það er ekki gott. Og hér var vissulega um annmarka að ræða. En ég vil segja að það snýst líka um traust á lýðræðinu og um það að virða lýðræðið, að ógilda ekki kosningar þegar fólk kemur í góðri trú til að greiða atkvæði og það er ekki neinn grunur eða líkur eða annað slíkt sem bendir til þess að við séum ekki með lýðræðislega rétta niðurstöðu í höndunum. Þá er það mikill ábyrgðarhlutur og getur rýrt traust að ógilda kosningar án þess að hafa nokkur rök fyrir því.