152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[21:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er ágreiningslaust að það voru verulegir annmarkar á talningu atkvæða og vörslu kjörgagna í Borgarnesi. Í ljósi þess hins vegar að ég tel ekki að nægar líkur hafi verið leiddar að því að þeir annmarkar hafi haft áhrif á niðurstöður kosninga og þar með komið í veg fyrir að vilji kjósenda næði fram að ganga, og í ljósi þess að afleiðing þess að ógilda 16 kjörbréf hefur í för með sér uppkosningu í einu kjördæmi, sem myndi bjaga mjög niðurstöðu lýðræðislegra kosninga þar sem þeir kjósendur myndu kjósa við aðrar aðstæður og með aðrar upplýsingar en kjósendur annars staðar og hafa þannig áhrif á niðurstöður jöfnunarsæta og hlutföll á landsvísu, tel ég að gera þurfi ríkari kröfur til þess að leiða líkur að því að annmarkarnir hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna. Því mun ég styðja að 63 kjörbréf, þar með talin þessi, verði samþykkt. Ég hef komist að þessari niðurstöðu eftir að hafa farið ítarlega yfir þau gögn sem undirbúningskjörbréfanefnd og kjörbréfanefnd lögðu fyrir þingið.

Ég vil þakka nefndinni fyrir þeirra góðu og vönduðu vinnu og ítreka mikilvægi þess að við sem hér sitjum á Alþingi Íslendinga drögum lærdóm af þessu ferli öllu, ekki síst þegar kemur að breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá.