152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[21:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands boðar að Alþingi sjálft skeri úr um hvort þingmenn þess séu löglega kosnir. Þingmenn geta ekki skorast undan því boði stjórnarskrárinnar þótt mörgum þætti eflaust þægilegra að sitja hjá í dag í ljósi þeirra álitamála sem upp komu við framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi. Það er hins vegar svo að okkur þingmönnum hefur verið gert kleift að taka upplýsta afstöðu gagnvart þeim álitamálum sem upp komu við framkvæmd kosninganna á grundvelli ítarlegrar rannsóknar undirbúningskjörbréfanefndar og síðar kjörbréfanefndar, sem staðið hefur yfir í tæpa tvo mánuði. Rannsóknin byggir á áliti fjölda sérfræðinga, rannsókn lögreglu, yfirgripsmiklum vettvangsferðum og yfirheyrslum og túlkun á gildandi lögum um framkvæmd kosninga. Að lokinni þessari rannsókn er það niðurstaða meiri hluta kjörbréfanefndar að ekkert bendi til þess að þeir annmarkar sem voru á framkvæmd kosninganna hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Það sé því ekki ástæða til að ógilda kosninguna í Norðvesturkjördæmi. Ég tel, eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, sem birt hafa verið á vef Alþingis, að byggja beri á niðurstöðu meiri hluta kjörbréfanefndar í dag.

Virðulegur forseti. Ég greiði atkvæði með því að staðfesta útgefin kjörbréf.