152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Kæra þjóð. Þá erum við saman komin aftur á nýju kjörtímabili. Loksins, loksins eftir langa bið og erfiða fæðingu. Ég vil byrja á því að óska nýrri ríkisstjórn farsældar á komandi kjörtímabili. Ég hlustaði á hæstv. forsætisráðherra flytja virkilega fallega ræðu, draumkennda ræðu um næstum því ekkert nema vonir og þrár. Skoða hitt og þetta, að við yrðum jafnvel brautryðjendur í þróun á velsældarmælikvarða á erlendri grundu. Við þurfum sem sagt aðstoð. Við þurfum sem sagt að þróa velsældarmælikvarða til að hægt sé að átta sig á því hvernig raunveruleg staða samfélagsins er. Er það ekki dapurt? Er ekki dapurt að sitja þannig í fílabeinsturninum að ekki þyki ástæða til að stíga niður á jörðina til þeirra hinna sem eiga um sárt að binda og eiga ekki fyrir salti í grautinn? Jú, mér þykir það.

Það er talað um jöfnuð, það er talað um velsæld og það er talað um að vera fyrir alla landsmenn. Þessi ríkisstjórn hefur haft heilt kjörtímabil til að sýna hvort hún er raunverulega fyrir alla landsmenn. Fátækt fólk hefur beðið allt kjörtímabilið í von um að hugsanlega myndu þau hætta að skattleggja fátækasta fólkið. Ég var að vona einhvern veginn að það yrði eitthvað meira fast í hendi, bæði í stjórnmálasáttmála þessarar ríkisstjórnar og í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, eitthvað um hvað ætti raunverulega að gera fyrir tugþúsundir Íslendinga sem kvíða núna jólunum. Hvað á að gera fyrir börnin sem leggjast svöng á koddann? Hvað á að gera í útskriftarvandanum þar sem 100 eldri borgarar bíða eftir því að komast í ærlegt búsetuúrræði á síðustu ævidögum?

Ég vil sjá eitthvað annað á blaði en vonir, drauma og þrár. Ég vil sjá raunverulegar aðgerðir. Það eina sem ég sá virkilega raunverulegt í þessari stefnuræðu — sem gladdi mig af öllu hjarta og ég vona svo sannarlega að verði ekki geymt þangað til 5 mínútur í næsta kjördag, ef ríkisstjórnin skyldi svo farsællega halda út kjörtímabilið — og það var löggilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég segi bara, virðulegi forseti: Kæra þjóð. Betur má ef duga skal.

Flokkur fólksins þakkar þann mikla stuðning sem þið sýnduð okkur í síðustu kosningum. Þið eigið orðið sex manna þingher, að mér finnst, í dag. Og eitt er alveg víst: Við munum syngja fallega sönginn einum tóni hér. Við munum ganga í takt í stjórnarandstöðu. Og við munum vera þrýstingur á stjórnvöld, að þau standi við eitthvað af sínum draumum, vonum og þrám, að þau standi við að þau séu ríkisstjórn allra landsmanna en ekki sumra, að þau verði ríkisstjórn sem berst ekki eingöngu fyrir sérhagsmunum, að þau verði ríkisstjórn sem sparar ekki bankaskattinn á banka sem hafa skilað yfir 900 milljörðum í arð frá hruni. Að hugsa sér, virðulegi forseti, þau lækkuðu bankaskattinn um 7 milljarða kr. á síðastliðnu ári og veiðigjöldin lækkuðu um ríflega 4 milljarða. Svo eru aldrei til peningar fyrir fátækt fólk. Mér misbjóða svona stjórnarhættir.

Mér finnst virkilega dapurt ef það sem við heyrum hér og nú í kvöld verður ekkert annað en innantómt blaður, draumar og þrár. Við ykkur segi ég þetta, kæru landsmenn: Það kostar ekkert að láta sig dreyma. Og því miður er ég ansi hrædd um að það verði margir sem lifa bara á draumnum einum saman núna fyrir jólin. Ég þekki það á eigin skinni að þurfa að kvíða því að eiga ekki fyrir mat á diskinn, kvíða því að geta ekki gefið barninu mínu jólagjöf. Þúsundir foreldra — þúsundir foreldra standa í þeim sporum í dag. Ef þessi ríkisstjórn sér ekki sóma sinn í því að rétta þeim hjálparhönd þá er hún ekki ríkisstjórnin mín.