152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það er ástæða til að fagna í dag fyrir margra hluta sakir. Þing er loks komið saman, það er nú eitt, og átti sér langan aðdraganda. Fullveldisdagurinn er í dag og hann er fagnaðarefni ár hvert. Fullveldið er ekki sjálfsagður hlutur og dagurinn í dag á að vera okkur ærið tilefni til að rifja það upp hverju fullveldið hefur skilað okkur sem þjóð, hvaða lífskjör við höfum byggt upp á grundvelli þess, og verða okkur tilefni til þess að minna okkur á að á grundvelli þess getum við haldið áfram að byggja upp lífskjörin í landinu.

Á þetta er minnst og á þetta er lögð áhersla í nýjum stjórnarsáttmála þar sem við leggjum áherslu á alþjóðlegt samstarf og opið frjálst markaðshagkerfi á Íslandi, allt á grunni fullveldisins. Og við viljum, já, vera utan Evrópusambandsins.

Nú er ný ríkisstjórn tekin til starfa. Hún hefur mjög sterkt umboð, það er ekki annað hægt að segja. Hér í þinginu er mjög ríflegur meiri hluti að baki ríkisstjórninni. Það er gott veganesti fyrir nýja stjórn, stjórn nýrra tækifæra.

Við fáum sjaldan annað eins skólabókardæmi um virði einkageirans á Íslandi og þetta flókna margslungna samspil einkageirans við opinberu fjármálin, við framkvæmd peningastefnunnar, við það hvernig við beitum ríkisfjármálunum, hversu mikilvæg opinber þjónustan er, en við höfum svo sannarlega fengið slíkt dæmi, raunhæft verkefni, undanfarið rúmt árið. Við sáum með opnum augum það gerast fyrir framan okkur að ríkissjóður féll skyndilega í 300 milljarða kr. halla þegar töpuðust 20.000 störf einmitt í einkageiranum. Við sögðum: Verkefnið hlýtur að vera það að endurheimta þessi störf þannig að við getum til lengri tíma risið undir opinberri gæðaþjónustu á Íslandi, öflugu heilbrigðiskerfi, sterkum innviðum o.s.frv. Þetta var ekki sjálfgefið og við tókum langar umræður hér í þingsal um það hvort við hefðum valið réttu leiðina, hvort nóg væri að gert, þó að ríkisstjórnin hafi verið skýr um að það skyldi gera meira en minna.

Í dag er ágætisdagur til að líta um öxl og spyrja sig: Var rétta leiðin valin? Var nóg að gert? Við höfum skýr merki. Á morgun förum við í fjárlagaumræðuna. Við sögðumst vilja vaxa út úr heimsfaraldrinum og á þessu ári hafa orðið til 20.000 störf. Afkoma ríkissjóðs fer snarbatnandi. Það munar 120 milljörðum frá þessu ári yfir á það næsta ef spár ganga eftir. Við höfum fundið viðspyrnuna, við gátum veitt fyrirtækjunum skjól og við höfum þess vegna sterkan grunn til að halda áfram.

Við skulum taka þennan lærdóm með okkur inn í framtíðina, m.a. um virði þess fyrir opinbera geirann að hér sé til staðar kraftmikil verðmætasköpun í einkageiranum. Þess vegna fer þessi ríkisstjórn af stað með mikla áherslu á að allt samfélagið geti tekið sér til gagns nýja tækni, að við tökumst á við loftslagsbreytingarnar og að við nýtum tækifærin til að gera meira í framtíðinni hér á Íslandi. Það er grunnurinn að því að við getum bætt kjör allra stétta.

Þegar ég ræði um tækifæri og áskoranir sem þeim fylgja þá finnst mér full ástæða til að rifja upp þennan tíma sem nú er að baki. Ég stóð hér fyrir rúmlega ári síðan og sagði að við værum líklega þá um haustið ekki lengur í fordæmalausum tímum. Þetta var tímabil sem var farið að dragast á langinn og það óvenjulega var einhvern veginn orðið venjulegt. Við erum enn með grímur hér inni í þingsal. Það er ótrúlegt hvað þetta venst nú fljótt en vonandi fer þessu ástandi fljótt að ljúka. Þessir tímar eru ekki lengur fordæmalausir, þeir hafa bara fylgt okkur miklu lengur en maður gat séð fyrir. Og þó að við séum enn í viðjum faraldursins upp að einhverju marki þá skulum við samt taka eftir því hve hratt staðan er að breytast okkur í vil. Það er margt sem er okkur í hag. Hagkerfið er farið af stað af fullum krafti. Það er farið að vaxa hratt og hraðar en víðast annars staðar. Okkur hefur tekist að tryggja útbreidda bólusetningu og t.d. mikla þátttöku í örvunarbólusetningum. Þess vegna segi ég: Við getum litið svo á að erfiðasti tíminn sé að baki. En það er ekki nóg. Við verðum að halda áfram að sækja fram til bættra lífskjara.

Óvissan var gríðarleg fyrir ári síðan, m.a. um afhendingu bóluefna. Það er innan við ár síðan við gátum sagt með einhverri vissu að við fengjum bóluefnin og nægilega mikið af þeim. Við höfðum líka litlar upplýsingar um virknina og erum enn að læra. En engu að síður er hægt að standa hér og fullyrða að við völdum rétta leið. Við höfum náð frábærum árangri með samstöðunni og á þeirri samstöðu eigum við að byggja áfram í framtíðinni, á grundvelli samstöðu sem skilaði sterkri stöðu. Eftir eitt erfiðasta efnahagslega áfall sem við höfum upplifað erum við í kjörstöðu til að grípa tækifæri samfélagsins, vaxa til velsældar og upphaf þingstarfa er fyrsta skrefið á þeirri leið.