152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Kæru landsmenn. Það er kaldhæðnislegt að fagna fullveldisdeginum í þessum sal við þessar aðstæður. Við ættum að vera að minnast þess þegar við urðum frjálst og fullvalda ríki, laus undan afskiptum Danakonungs. En sú er ekki raunin. Þetta þing situr ekki aðeins í skugga lögbrota og óstaðfestra talninga, heldur jafnframt í skugga þeirra sterku ítaka sem löngu látinn Danakonungur hefur enn þá á íslenska stjórnskipan.

Við sitjum hér í krafti úrelts ákvæðis um að við alþingismenn skulum vera dómarar í eigin máli og ákveða sjálf hvort við séum rétt kjörin. Þetta fáránlega fyrirkomulag samræmist ekki lýðræðishefðum nútímans, eins og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið skýrt á um og mun að líkindum gera aftur í tilfelli Íslands á þessu kjörtímabili. Það er því mótsagnakennt að minnast fullveldisins á sama tíma og lögmæti þjóðþingsins sjálfs hvílir enn þá á löngu úreltum leikreglum Danakonungs.

En það er fleira mótsagnakennt við daginn, eins og heyra mátti í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Efnahagslegar og félagslegar framfarir, segir hún. En síðustu fjögur ár, nýr stjórnarsáttmáli og fjárlagafrumvarp gærdagsins sýna þó að þessi stjórn boðar engar framfarir. Þrír íhaldsflokkar hafa ekki og munu ekki standa að þeim breytingum sem nauðsynlegar eru, ekki í loftslagsmálum, mannúðarmálum, stjórnarskrármálum, tæknivæðingu, auðlindamálum eða réttarkerfinu. Þau álíta það nefnilega dyggð að standa vörð um óbreytt ástand. Flokkarnir þrír kalla þetta stöðugleika. Ég kalla það tregðu til þess að horfast í augu við stórar áskoranir og takast á við þær af hugrekki. Engu að síður eru þau tilbúin að gera margt fyrir þennan meinta stöðugleika, jafnvel þó að það gangi gegn þeirra eigin stefnu.

Áður en Vinstri græn ákváðu að leggjast í eina sæng með flokkum sem barist hafa ötullega gegn stjórnskipunar- og lýðræðisumbótum í áraraðir hafði flokkurinn það að stefnu sinni að ljúka þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klára nýju stjórnarskrána, byggða á tillögum Stjórnlagaráðs. Núna vill formaður þessa sama flokks svæfa stjórnarskrána í nefnd. Þetta er kúvending í þágu afturhalds sem reyndar má finna víðar í þessu samstarfi.

Röðun í ráðherrastóla sýnir þetta svart á hvítu. Flokkur forsætisráðherra, sem enn nýtur hylli fyrst og fremst fyrir stefnu sína í umhverfismálum, lætur sjálft umhverfisráðuneytið í hendur flokks sem fékk fullkomna falleinkunn fyrir stefnu sína í loftslagsmálum. Flokkur sem nýtur hylli, eða naut áður, fyrir stefnu sína í málefnum flóttafólks færir lyklavöldin að dómsmálaráðuneytinu aftur í hendurnar á flokki sem vísar konum sem búið hafa við líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi í áraraðir, aftur í frekara ofbeldi, vonleysi og neyð. Flokki sem vísar börnum úr landi til þess að búa á brotajárnshaugum þar sem þau búa við öryggisleysi, hafa ekki aðgang að fæði og klæðum, að heilbrigðisþjónustu eða menntun. Flokki sem sér enga aðra lausn á neyð þessara barna en að henda þeim fyrr úr landi til að koma í veg fyrir að þau venjist örygginu og hlýjunni á Íslandi áður en þau eru send aftur til vítisvistarinnar á götum Grikklands.

Í nafni skilvirkni hefur Sjálfstæðisflokkurinn í þrígang lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga sem myndu gera stjórnvöldum skylt að snúa þessum konum og börnum við á flugvellinum án þess að þau fái minnstu áheyrn. Þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert í skjóli Vinstri grænna sjálfra. Aftur setja þau stjórnartaumana í hendur þessa harðneskjulega flokks á sama tíma og Framsókn hefur setið auðum höndum úti í horni og leyft þessu öllu að gerast athugasemdalaust. Flokkur sem stærir sig af því að standa með börnum segir ekkert þegar þeirra eigin ríkisstjórn setur börn út á guð og gaddinn. Framtíð þessara barna réðst svo sannarlega á miðjunni.

Kæra þjóð. Það er ekki stöðugleiki að hafna nauðsynlegum lýðræðisumbótum. Það er ekki stöðugleiki að hafna gildum sínum, mannúð og framtíðarsýn. Það er enginn stöðugleiki fólginn í því að loka augunum fyrir umbreytingum sem eru að verða á heiminum, óháð þeirri stefnu eða þeim vilja sem er hjá einu pínulitlu þjóðþingi norður í hafi. Það er afturhald sem við þurfum að segja skilið við, rétt eins og Danakonung á sínum tíma.