152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Kæru áheyrendur. Þegar þingið mætir aftur til starfa á nýju kjörtímabili felur það í sér ákveðnar væntingar um ferska vinda eftir kosningar þar sem flokkar hafa endurnýjað erindi sitt, umboð og loforð gagnvart kjósendum. Þannig ferskleiki einkennir ekki stjórnarsáttmálann sem kynntur var um helgina. Þar birtist framtíðarsýn næstu fjögurra ára skrifuð af fólkinu sem er brennt af samstarfi síðustu fjögurra ára. En í stað þess að skilja bara og leita hamingjunnar hjá einhverjum sem þau eiga raunverulega samleið með ákváðu þau að krydda upp á sambandið, endurnýja heitin en hrista aðeins upp í þeim með ýmsu sem þau höfðu áður neitað sér um. Fyrir vikið er stjórnarsáttmálinn fullur af hvers kyns nýjungum sem þau afneituðu jafnvel sjálf bara fyrir nokkrum mánuðum.

Ég lagði t.d. fram tillögu um mannréttindastofnun fyrir ári og þá höfðu þau engan húmor fyrir henni en nú allt í einu dúkkar hún upp í sjálfum stjórnarsáttmálanum. Að sama skapi lagði ég fram tillögu um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem var slegin út af borðinu í júní en er nú orðinn að einhvers konar krúnudjásni í stjórnarsáttmálanum og tillaga mín um að banna olíuleit sem hvarflaði ekki að þeim að samþykkja í sumar — jú, þið finnið hana á bls. 9 og 27. Það er auðvitað fagnaðarefni þegar góðar hugmyndir ná fram að ganga en þessi smásálarlega þrjóska við að samþykkja mál frá fólki sem er í öðru liði en ríkisstjórnin gefur sannarlega ekki fyrirheit um betri stjórnmál.

Fyrstu daga nýrrar ríkisstjórnar hefur verið erfitt að átta sig á mörgum ákvörðunum sem voru teknar í þessari stærstu ráðherrahringekju Íslandssögunnar. En það eru tvö nöfn á ráðherralistanum sem helst vekja undrun mína. Ráðherrar sem fara með málaflokka sem tilvera Vinstri grænna hefur hverfst um frá stofnun, sjálf umhverfismálin og baráttuna gegn kynferðisofbeldi. Fyrir kosningar áttuðu virkjunarunnendur í Sjálfstæðisflokknum sig nefnilega á því að þeir gætu nýtt baráttuna í loftslagsmálum sér í vil og e.t.v. grætt aðeins á henni. Orkuskipti urðu töfraorð hjá þeim en í munni flokksins virðist það vera afturhvarf til Kárahnjúkatímans, vafið í grænan álpappír. Þótt loftslagsstefna Sjálfstæðisflokksins hafi goldið afhroð í einkunnagjöf Sólarinnar var flokkurinn verðlaunaður með því að fá að stýra þeim aðgerðum í ríkisstjórninni. Og hvaða ráðherra er falið að stýra umhverfismálunum þetta kjörtímabilið? Jú, einmitt ráðherranum sem djöflaðist á skóflunni við að grafa undan einni af grunnstoðum Vinstri grænna allt síðasta kjörtímabil. Á hans vakt í utanríkisráðuneytinu var svo mikil hernaðaruppbygging á vegum NATO að þegar hann hafði lokið sér af náði starfsemi erlends herliðs á Íslandi sögulegum hápunkti eins og til að hæðast að friðarsinnunum við ríkisstjórnarborðið. Eftir þá reynslu þykir meintum umhverfissinnum eðlilegt að afhenda honum lykilinn að mikilvægasta ráðuneytinu þar sem hann fær að leika lausum hala næstu fjögur árin á kostnað komandi kynslóða.

Vísindaleg þekking er undirstaða allra aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum, segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ef þau hefðu það raunverulega að leiðarljósi þyrfti að ganga svo miklu lengra, boða alvörukerfisbreytingar, setja fram skýr og tölusett markmið og fjármagna þau en það getur reynst ómögulegt því að eins og við Píratar sögðum svo oft í kosningabaráttunni er til einskis að vera með göfug markmið í loftslagsmálum ef þú ætlar síðan lóðbeint aftur í samstarf með þeim sem eru fullkomlega metnaðarlaus gagnvart þeim.

Það kæmi mér ekki á óvart að baráttan gegn ofbeldi færi sömu leið næstu fjögur árin. Forsætisráðherra sagði hér áðan að kynbundið ofbeldi og bætt staða brotaþola verði forgangsmál á kjörtímabilinu. En hvern fær hún til verksins? Mann sem lagðist gegn því að konur fengju aukin yfirráð yfir eigin líkama í þungunarrofsfrumvarpinu og uppnefndi gagnrýnendur sína, mann sem glaður setur nafn sitt á nánast hvert einasta tálmunarfrumvarp sem lagt er fram svona rétt til að fjölga ásunum í ermi ofbeldismanna. Þeir þolendur sem höfðu vonast eftir kerfisbreytingum og að raddir þeirra fengju loksins hljómgrunn innan þingsins þurfa að bíða áfram eins og innanríkisráðherra sagði sjálfur á mánudag, jafn steinhissa á því að vera valinn í ráðuneytið og við hin, þá eru engar byltingarkenndar breytingar að eiga sér stað af hans hálfu. Skipun hans er móðgun við fólk sem gerir réttmæta kröfu um löngu tímabærar framfarir í þágu réttlætis.