152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum auðvitað að ræða hér um mjög viðkvæman málaflokk og mér finnst lítið vera gert úr því hjá hv. þingmanni að tala um að það samkomulag sem nágrannaþjóðir okkar og þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við sé ekki pappírsins virði og að það þurfi ekki að vera eitthvert samkomulag, þetta sé ekkert vandamál. Það er mikil einföldun að mínu mati. Þetta er auðvitað ákveðið vandamál og þjóðum ber að takast á við það með svipuðum hætti og það er það ferli sem við höfum verið að reyna að feta og hér eru reglur síst harðari en í öðrum löndum sem við berum okkur saman við.

Það var spurt að því áðan hvort það væru einhverjar leiðir til að ná sparnaði. Ég ítreka að það er í sjálfu sér ekki eitthvert markmið að ná fram verulegum sparnaði í þessum málaflokkum heldur miklu frekar það að nálgast þessi mál þannig að við lendum ekki í þeirri viðkvæmu stöðu sem við erum alltaf lent í, og hv. þingmaður rakti svo ágætlega hér, með dæmum út frá sinni reynslu, þar sem fólk er milli vonar og ótta í allt of langan tíma. Við þurfum að reyna að greiða úr þessum málum með skilvirkum hætti þannig að borðið sé hreint að því leyti og að við getum þá, gagnvart þeim sem við erum að taka á móti, uppfyllt skyldur okkar um að bjóða þeim sómasamlegar aðstæður og koma þeim sem gegnum þegnum út í íslenskt samfélag. Þetta hlýtur að vera markmið okkar allra og þetta er það takmark sem ég mun hafa í þessu, að við getum gert þetta með þeim hætti. Við erum með stækkandi hóp hérna hjá okkur núna þrátt fyrir Covid og það er vegna þess að það gengur erfiðlega að framfylgja niðurstöðum þeirra stofnana sem um þetta fjalla (Forseti hringir.) og að fólk fari aftur til baka til þess lands þar sem það hefur áður hlotið vernd. Það er vandamál sem við glímum við í dag (Forseti hringir.) og eykur svolítið á þann vanda sem við er að eiga.