152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir svarið. Aftur notar ráðherra orð sem vekur áhuga minn og það er orðið „skilvirkni“ sem ég nefndi líka í ræðu áðan. Þá langar mig að beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra. Það frumvarp sem hefur verið lagt fram í þrígang og ég sé ekki betur en að standi til að leggja fram aftur snýst um, eins og ég sagði, að það megi ekki taka þessi mál til efnismeðferðar en að skoða skuli hvort veita eigi fólki dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það er engin skilvirkni sem hlýst þarna. Þetta tekur jafn langan tíma. Þetta er jafn erfið ferð, erfitt ferli, það eru sömu atriði sem þarf að skoða og ekkert sem bendir til annars en að það mun taka jafn langan tíma. Það eina sem breytist er staða fólks að lokinni málsmeðferðinni, ef hún er farsæl. Það eru kannski minni líkur á að það fái að vera en það mun kosta íslenska ríkið nákvæmlega jafn mikið og jafn mikinn tíma og það gerir í dag. En það eru minni líkur á að fólk fái að vera og ef það fær að vera þá hefur það lakari réttindi, styttri tíma og ekki atvinnuréttindi sem er náttúrlega mjög undarlegt. (Forseti hringir.) Þannig að spurning mín er kannski þessi: Hvernig á þetta að auka skilvirkni?