152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:23]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvör og góða spurningu. Ég held nefnilega að það sé mótsögn í þessari setningu. Ég held að það geti ekki ríkt á sama tíma gagnsæi í meðferð íslenskra stjórnvalda á útlendingamálum og traust ef það traust á að vera af hálfu almennings, þar sem ég trúi því, hafandi sjálf verið í áraraðir alveg í innsta koppi í afgreiðslu þessara mála — og ég veit hvernig þetta er, ég veit hver raunveruleikinn er, ég hef setið með þessu fólki í viðtölunum, ég veit allt sem gagnsæið ætti að sýna. Það er ekki efi í mínum huga að íslenska þjóðin myndi aldrei sætta sig við þetta, það myndi ekki ríkja traust í kjölfarið. Ég held því að þetta sé óuppfyllanlegt en ég er mjög spennt að sjá, ég held að ég orði það bara þannig.

Það var annað sem hv. þingmaður nefndi sem gladdi mig, það var að benda á að við erum að tala um fólk. Við erum ekki að tala um böggla, við erum ekki að tala um neitt annað. Við gleymum því svolítið að fólk er ekki byrði á samfélögum. Samfélög eru fólk. Fólk verður hluti af samfélaginu, í fyrsta lagi náttúrlega ef því er gefinn kostur á að vera hluti af samfélaginu. Fólk sem er hluti af samfélaginu er virkt í samfélaginu. Það vinnur oft sína vinnu, eða ekki, það hefur tekjur einhvers staðar frá sem það síðan notar til að kaupa vörur og þjónustu. Flóttafólk fer í bíó eins og við hin. Það fer út að versla eins og við hin. Það borðar mat eins og við hin. Það er hluti af bæði samfélaginu og efnahagnum. Það er ekki byrði. Það er ekki beinn kostnaður fólginn í því að leyfa fólki að verða hluti af samfélaginu. Það er hins vegar mikill beinn kostnaður í því að flytja það úr landi með valdi.