152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þetta er kannski dæmi sem sýnir glöggt vanda þessarar ríkisstjórnar. Þetta er nefnilega eitt af því sem ég sá í ríkisstjórnarsáttmálanum sem mér fannst áhugavert. Það var þessi áhersla sem ég heyrði hérna líka í orðum hæstv. ráðherra á það sem ég hef talið vanrækt um áraraðir í Evrópu og á Íslandi sem annars staðar og alltaf litið á sem gæluverkefni eða eitthvað sem við getum hugsað um einhvern tíma seinna þegar einhver hefur tíma. Það er aðlögun og það er innvinklun flóttafólks í samfélagið, virk aðlögun þess. Það þarf að gera átak í því að aðstoða fólk og styðja það í að verða hluti af samfélaginu, og þá á ég ekki bara við með því að sýna því hvernig maður flettir upp íbúðum á Leigulistanum og annað heldur bara hvernig við búum í þessu samfélagi og hvernig við eigum samskipti og annað. Það er lykilatriði til þess að fólk eigi einhverja möguleika á að bjarga sér sjálft í samfélagi, þannig að það gleður mig mjög mikið að sjá það og ég vona að hæstv. ráðherra muni taka þetta af miklum metnaði, það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Það sýnir hins vegar kannski einmitt vanda þessarar ríkisstjórnar að ef hæstv. innanríkisráðherra ætlar að halda áfram þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að eyðileggja fólk sem allra mest áður en það fær loksins mögulega þá niðurstöðu að það fái hér að vera kemur það enn brotnara og verr í stakk búið til að aðlagast samfélaginu þegar það kemur síðan inn á borð hæstv. félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Við þekkjum það öll að það getur verið mjög erfitt að einbeita sér þegar manni líður illa. Það kann að koma einhverjum á óvart en þegar fólk er búið að fá gríðarlega mikla höfnun, og þá erfiðu höfnun sem felst í neikvæðum ákvörðunum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála, þá er jákvæð niðurstaða að endingu, ári eða einu og hálfu ári seinna, þessu fólki áfall. (Forseti hringir.) Það getur farið í sjálfsvígshugleiðingar í kjölfarið. Það er ekki einhver gleðifrétt. (Forseti hringir.) Þetta er ekki á manneskju leggjandi þannig að ég vona að þetta samstarf muni ganga upp.