152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:12]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu áðan. Nú hefur dálítið verið rætt í dag um þessa uppskiptingu ráðuneyta og nýja úthlutun verkefna til hinna ýmsu ráðherra sem vafi leikur á um hvort viti sjálfir hvað þeir eiga að vera að gera og liggur fyrir að starfsfólk þeirra veit ekki hvað það á að vera að gera. Ég velti fyrir mér hvað þingmanninum finnst um þetta nýja fyrirkomulag og þá skiptingu verkefna sem við sjáum með því fyrirkomulagi þar sem í fyrsta lagi virðist ekki sem það sé neitt sérstaklega útpælt hvernig verkefnum er skipt eða hversu mörg ráðuneytin eru. Það virðist frekar byggjast á því hversu marga stóla þessa ríkisstjórn vantar til þess að geta haldið hjónabandinu gangandi. En ég velti fyrir mér hvað þingmanninum finnst (Forseti hringir.) um þetta og þá kannski ekki síst uppskiptingu verkefna (Forseti hringir.) sem heyra undir menntamálaráðuneyti eða eru tengd menntamálum. (Forseti hringir.) Ég hef mjög mikinn áhuga á að vita hvað þingmaðurinn hefur um þetta að segja.