152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan þá er lestur fjárlagafrumvarpsins áhugaverður. Þrátt fyrir að ýmislegt bendi til að við séum bara með ákaflega hrá drög í höndunum þá eru þau að mörgu leyti afhjúpandi. Jafnvel þar sem kannski er ekki um háar tölur að ræða þá segja þær mikla sögu. Ég hjó eftir því við lesturinn að fjárheimild undir liðnum um forsætisráðuneytið lækkar um 15 millj. kr. Það eru ekki miklir peningar í stóra samhenginu, en hún lækkar þar sem tímabundin fjárheimild vegna stjórnarskrárnefndar er felld niður. Þetta er kannski smotterí, en er þetta til marks um að þessi nefnd forsætisráðherra um stjórnarskrárbreytingar sé ekki strax á dagskrá? Ef það á að vera nefnd, við vitum svo sem ekki hvað það var sem forsætisráðherra átti við með því að setja á fót vinnu sérfræðinga og talaði þar eins og ekkert hefði gerst. Það hefði ekkert verið gert í stjórnarskrármálum hingað til og við værum bara rétt að byrja að pæla í þessu núna, svona í ljósi þess að þessi úrelta stjórnarskrá sem við búum við sprakk í andlitið á okkur fyrir réttum tveimur mánuðum síðan. Þetta er ekki í takt við það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í sinni stefnuræðu, með leyfi forseta:

„Fyrir fjórum árum lagði ég til áætlun um hvernig mætti vinna að breytingum á stjórnarskrá á tveimur kjörtímabilum. Ég mun halda áfram undirbúningsvinnu við breytingar samkvæmt þeirri áætlun sem þá var lögð fram síðar og á kjörtímabilinu mun ég ræða við formenn flokka hér á Alþingi um hvort vilji sé til þess að eiga áframhaldandi samráð um tillögur til breytinga.“

Þetta fannst mér sérstaklega áhugavert. Þá velti ég fyrir mér hvort það hafi raunverulega farið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það eru formenn hinna flokkanna, sem hún hefur nú öðru sinni ákveðið að mynda ríkisstjórn með, sem hafa staðið einna fastast í vegi fyrir stjórnarskrárbreytingum sem hefðu getað orðið hérna fyrir tíu árum síðan. Í tíu ár, áratug, er markvisst búið að koma í veg fyrir að þessari vinnu sé áfram haldið og hæstv. forsætisráðherra ætlar núna að kanna hug þeirra til nýrrar stjórnarskrár. Mig langar að segja að það verði áhugavert að sjá hvað kemur út úr því samtali en mig grunar að ég viti það. Mig grunar reyndar að hæstv. forsætisráðherra viti það líka og þetta sé allt til málamynda.

Í umræðutímum við lagadeild Háskóla Íslands skilst mér að laganemum sé sagt að lesa stjórnarskrána og gleyma svo öllu sem þar stendur um íslenska stjórnskipun þar sem hún sé í reynd allt öðruvísi. Þetta er ekki svona. Þetta er bara af því að stjórnarskráin sem við erum með núna er klippt og límd úr stjórnarskrá konungsríkisins Danmerkur þar sem má segja að hafi verið skrifað „finna“ og „setja í staðinn“ — nú er ég að reyna að þýða í skyndi slettur sem eru manni tamari úr ensku — og þar hafi verið skipt út orðunum forseti í stað konungs, konungi skipt út fyrir forseta. Þess vegna er þessi stjórnarskrá ekki boðleg fyrir sjálfstæða þjóð. Hún er ekki boðleg vegna þess að hún endurspeglar ekki einu sinni núgildandi stjórnskipun. Þá erum við ekki einu sinni farin að ræða um þær breytingar sem fólk vill mögulega gera á stjórnskipuninni eða á einhverju öðru, t.d. að minnast á náttúruna, í stjórnarskránni á þeim tíma var hugurinn ekki þar, eða á íslenska tungu, ég held að það væri margir sem myndu líta á það sem ágætisbreytingu ef hún væri einhvers staðar nefnd á nafn.

Ég velti því fyrir mér hvað það er sem Sjálfstæðisflokkurinn óttast við nýju stjórnarskrána. Maður er oft að reyna að lesa hugsanir fólks þegar maður hefur á tilfinningunni að það sé ekki hreinskilið um skoðanir sínar. Ég hef rætt við marga vini og fólk sem ég er í ágætum tengslum við, hreinskilnisvinasambandi við, um þetta mál og hefur reynt að komast til botns í því og fæ mismunandi svör. En oftast er það eitthvað svona: Ég myndi orða seinni málsgreinina í fertugustu og eitthvað grein sem lögð er til, aðeins öðruvísi. En ég trúi því ekki að það sé ástæðan. Það getur ekki verið ástæðan. Ég er svolítið hætt að velta því fyrir mér hvað það er sem Sjálfstæðisflokkurinn óttast. Það er sennilega aukið vald almennings, mér finnst það ekki ólíklegt. En það er ekki hægt að gera annað en að reyna að lesa hugsanir fólks þegar það er ekki viljugt til að segja hug sinn. Það sem ég er samt enn þá að reyna að skilja og hef ekki fengið nein svör við, hvorki svör sem ég skil né trúi, er hvernig þeim tókst að sannfæra Vinstri græna um að þetta væri eitthvað sem skipti ekki neinu máli. Það er ég enn þá forvitin um. Það eru reyndar fáir úr flokki Vinstri grænna í húsi eins og staðan er en mér þætti gaman ef einhver gæti útskýrt það fyrir mér hvernig þetta gerðist. Það er nefnilega þannig að áður en Vinstri græn hófu þetta stjórnarsamstarf þá var það stefna flokksins að klára vinnu við nýja stjórnarskrá. Nýja stjórnarskrá, ekki bara eitthvert málamyndasparsl sem augljóst væri frá upphafi að yrði ekki samþykkt, eins og það sem hæstv. forsætisráðherra reyndi á síðasta kjörtímabili. Þá er ljóst að hæstv. forsætisráðherra stóð ein að þessum málamyndatilraunum sínum á síðasta kjörtímabili. Það sýnir kannski enn betur hver hugur meðstjórnenda hennar er. Í þetta skipti dregur hún enn meira úr. Hún ætlar að kanna áhuga formanna stjórnarflokkanna á málinu þegar líður á kjörtímabilið og við höfum nægan tíma. Hér er liðinn áratugur og við erum bara sultuslök yfir þessu.

Gleymum því ekki að það var þingmaður í hennar flokki, sem var framsögumaður stjórnarskrárfrumvarpsins sem hún flutti ein og gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það sat reyndar að mestu óhreyft í marga mánuði fyrir tilviljun. Þegar fulltrúi Pírata reyndi að bera upp drög að nefndaráliti sem hægt væri að sameinast um, sem fólst í því að færa ákvæði frumvarpsins til samræmis við vilja þjóðarinnar, til samræmis við frumvarp stjórnlagaráðs, þá var framsögumaður málsins ekki til í að ræða það neitt. Hann var ekki tilbúinn með sitt eigið nefndarálit eða neinar tillögur að breytingum. Hann lagði aldrei fyrir nefndina nefndarálit til afgreiðslu. Svo mikil alvara var nú að baki þessari tilraun hjá Vinstri grænum til að breyta stjórnarskránni.

Hæstv. forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson, sagði hér við þingsetningu á Alþingi fyrir skömmu að stjórnarskrárumbætur hefðu verið svæfðar í nefnd í einhverju nefndarherbergi hér á Alþingi, en það er aðeins hálfur sannleikurinn. Stjórnarskráin var svæfð af flokksmeðlimum Vinstri grænna sem sátu í ríkisstjórn á þessum tíma og voru með framsögu á frumvarpinu. Og núna, nokkrum mánuðum síðar, þegar ríkisstjórnin er búin að endurnýja heitin, ætlar hún augljóslega að hætta allri undirbúningsvinnu líka, undirbúningsvinnu sem þegar er unnin. En við skulum ekki tuða meira um það. Þetta er það sem ég les úr þessari þó ekki stærri breytingu í fjárlögum næsta árs. Innihaldslítið sem fjárlagafrumvarpið er þá segir það samt sitt.